Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 24. nóvember 2014 13:10
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Haukur Heiðar: Stór gluggi að vera valinn í landsliðið
Haukur Heiðar í leik gegn Fram.
Haukur Heiðar í leik gegn Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haukur vonast til að komast aftur í landsliðshópinn.
Haukur vonast til að komast aftur í landsliðshópinn.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Hægri bakvörðurinn Haukur Heiðar Hauksson hefur yfirgefið KR og er orðinn leikmaður AIK í Svíþjóð. Hann var valinn í úrvalslið Pepsi-deildarinnar á liðnu tímabili og er hæstánægður með að allt sé klappað og klárt varðandi félagaskipti sín.

„Það er mikil ánægja að vera loksins búinn að skrifa undir. Þetta hefur verið lengi í gangi og það tók langan tíma hjá félögunum að ná saman. Maður hefur verið í lausu lofti í nokkurn tíma en það er léttir að vera búinn að klára þetta," segir Haukur.

„Ég fór þarna fyrst út að skoða aðstæður og ég horfði á einn leik. Völlurinn hjá þeim er náttúrulega virkilega flottur, 50 þúsund manna þjóðarleikvangur. Svo er æfingasvæðið flott og það eru nokkrir gervigrasvellir sem er æft á þegar það er snjór og svona. Þetta lítur virkilega vel út."

Keyptur sem fyrsti bakvörður
AIK hafnaði í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á liðnu tímabili og tryggðu sér sæti í Evrópukeppninni. Haukur er hugsaður sem fyrsti hægri bakvörður liðsins.

„Ég býst við því að svona stórt félag stefni alltaf að því að vera allavega í topp þremur ef ekki stefnt að því að vinna deildina. Það var ekki samið aftur við hægri bakvörðinn sem var og ég er keyptur þarna inn sem fyrsti bakvörður," segir Haukur sem flytur út ásamt unnustu sinni í janúar.

„Við verðum á hóteli þarna fyrsta mánuðinn þar til við finnum okkur íbúð. Maður er mjög spenntur og ég er virkilega ánægður með að hafa náð því markmiði að komast út í atvinnumennsku."

Ekki alltaf nóg að vinna bara bikarinn
Haukur Heiðar var valinn í landsliðshópinn fyrr á þessu ári en hann hefur verið að banka á dyrnar þar. Hann er viss um að það hafi hjálpað sér að komast út.

„Íslenska landsliðið er að standa sig þvílíkt vel og það er stór gluggi að vera valinn í þetta lið. Þetta lítur frekar vel út. Ég vonast til að færast nær því að komast í hópinn aftur að vera kominn í stærri deild og stærra lið."

KR hefur misst afar öfluga leikmenn að undanförnu og ljóst að það bíður Bjarna Guðjónssyni þjálfara erfitt verkefni að fylla í skörðin.

„Það verða einhverjar breytingar en ég er viss um að Bjarni og félagar finni góða leikmenn og KR muni eiga mjög sterkt tímabil á næsta ári. Það er frábært að spila fyrir þetta félag og þessi þrjú ár sem ég var þarna unnum við þrjá titla. Það segir sitt að menn séu ekki fullkomlega sáttir við að vinna bara bikarinn í sumar, það lýsir því best hvernig er að spila fyrir þetta félag. Það er ekki alltaf nóg að vinna bara bikarinn. Það setur alvöru pressu á þig," segir Haukur Heiðar Hauksson.
Athugasemdir
banner
banner