þri 24. nóvember 2015 07:30
Elvar Geir Magnússon
Grealish hljóp hratt inn um gleðinnar dyr
Jack Grealish hefur mikla hæfileika... en er hausinn rétt skrúfaður á?
Jack Grealish hefur mikla hæfileika... en er hausinn rétt skrúfaður á?
Mynd: Getty Images
Vængmaðurinn tvítugi Jack Grealish hjá Aston Villa hefur enn og aftur ratað á síður slúðurblaða Bretlandseyja.

Partípinninn ungi sletti rækilega úr klaufunum eftir að hann og hans lið biðu afhroð 4-0 gegn Everton á Goodison Park á laugardag.

Villa vermir botnsæti ensku úrvalsdeildarinnar en Grealish ákvað að „drekkja sorgum" sínum með vinum á næturklúbbi í Manchester.

Þaðan var ferðinni svo heitið heim til Birmingham þar sem gleðin hélt áfram í einkasamkvæmi sem Grealish hélt á hóteli í miðbænum. Þar fengu hann og vinir hans félagsskap frá tveimur ljóshærðum stúlkum og var kampavínið flæðandi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Grealish ratar á slúðursíðurnar fyrir djammlíferni sitt en í sumar var hann myndaður áfengisdauður á götum úti á Tenerife.

Remi Garde, stjóri Aston Villa, hefur varað Grealish við því að hann verði að lifa líferni íþróttamanns til að þroskast og þróast sem fótboltamaður. Garde segir að leikmaðurinn ungi þurfi að leggja meira á sig.

Samkvæmt könnun Daily Mirror telja 72% lesenda að Aston Villa þurfi að bregðast við og refsa Grealish fyrir dapra hegðun hans utan vallar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner