þri 24. nóvember 2015 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Stuðningsmenn Real réðust að rangri manneskju
Mynd: Getty Images
Cristian Cedres heitir 19 ára gamall leikmaður unglingaliðs Real Madrid sem lenti í leiðinlegri lífsreynslu þegar reiður hópur stuðningsmanna Real réðst að honum meðan hann var á leið af æfingu.

Lýðurinn hreytti ljótum orðum að Cedres og lamdi og sparkaði í bíl táningsins sem tjáði sig um málið á Twitter.

„Það er ekki venjulegt að fólk sé að bíða eftir leikmönnum fyrir utan æfingasvæðið til að móðga þá og berja og sparka í bílana þeirra. Allir hjá Real Madrid ættu að sýna hvorum öðrum stuðning á þessari stundu. Áfram Madrid."

Cedres er meðal efnilegustu leikmanna unglingaliðsins sem er þjálfað af Zinedine Zidane.

Mundo Deportivo greinir frá því að lýðurinn sem réðst á Cedres hafi talið hann vera part af aðalliðinu og hafi því ráðist að rangri manneskju.

Stuðningsmenn félagsins eru margir reiðir eftir 4-0 tap gegn erkifjendunum Barcelona á Santiago Bernabeu um helgina, en sumir virðast þó vera talsvert reiðari en aðrir.
Athugasemdir
banner
banner
banner