Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 25. janúar 2015 17:24
Elvar Geir Magnússon
Reykjavíkurmótið: Leiknir áfram eftir læti og dramatík
Hilmar Árni, sem var valinn besti leikmaður 1. deildar í fyrra, skoraði sigurmark Leiknis.
Hilmar Árni, sem var valinn besti leikmaður 1. deildar í fyrra, skoraði sigurmark Leiknis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur 2 - 3 Leiknir
0-1 Frymezim Vesalaj ('3)
1-1 Kristinn Freyr Sigurðsson ('8)
2-1 Kristinn Freyr Sigurðsson (víti '30)
2-2 Kolbeinn Kárason ('85)
2-3 Hilmar Árni Halldórsson (víti '90)
Rautt spjald: Ragnar Þór Gunnarsson, Valur ('15)

Leiknismenn eru komnir áfram í undanúrslit Reykjavíkurmótsins eftir 3-2 dramatískan sigur gegn Val. Breiðhyltingar skoruðu tvívegis í blálokin.

Leiknir tók forystuna eftir aðeins um tveggja mínútna leik. Miðjumaðurinn ungi, Frymezim Vesalaj, skoraði frábært mark. Hann hitti boltann afar vel og hann hafnaði í bláhorninu.

Um sex mínútum síðar jafnaði Valur eftir þunga sókn. Kristinn Freyr Sigurðsson tók boltann á lofti við markteiginn og átti ekki í vandræðum með að skora.

Eftir fimmtán mínútna leik hitnaði í kolunum og Ragnar Þór Gunnarsson tók pirringsbrot sem gerði að verkum að Leiknir Ágústsson dómari gaf rauða spjaldið. Nokkrum sekúndum síðar skaut Hilmar Árni Halldórsson í stöng Valsmarksins.

Tíu gegn ellefu komust Valsmenn yfir. Sigurður Egill Lárusson krækti í vítið og Kristinn Freyr skoraði af öryggi úr spyrnunni. Út hálfleikinn gekk Leiknismönnum erfiðlega að skapa sér færi og staðan 2-1 í hálfleik.

Valsmenn voru vel skipulagðir og gáfu fá færi á sér. Leiknismenn voru mun meira með boltann en gekk erfiðlega að skapa sér færi. Allt stefndi í sigur Valsmanna en í lokin náðu mótherjar þeirra inn tveimur mörkum.

Hilmar Árni átti frábæra fyrirgjöf á Kolbein Kárason sem skallaði boltann í markið gegn sínum gömlu félögum og jafnaði í 2-2. Í blálokin var svo dæmd vítaspyrna. Fyrst féll Hilmar í teignum en ekkert var dæmt en nokkrum sekúndum síðar féll svo Ólafur Hrannar Kristjánsson og þá benti dómarinn á punktinn. Valsmenn mótmæltu mikið.

Hilmar Árni fór á punktinn og skoraði sigurmarkið. Leiknismenn eru þar með öruggir með sæti í undanúrslitum.

Viðtöl við þjálfara verða birt á síðunni í kvöld.
Athugasemdir
banner
banner
banner