sun 25. febrúar 2018 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Gattuso: Erum ekki Man City - Þurfum að setja hjálmana á
Mynd: Getty Images
Milan byrjaði tímabilið mjög illa en Gennaro Gattuso hefur snúið gengi liðsins við og hafði betur gegn Roma á Ólympíuleikvanginum fyrr í kvöld.

Milan hefur ekki tapað í tólf leikjum eftir 2-0 tap gegn Atalanta og er aðeins sjö stigum frá Inter í meistaradeildarsæti. Inter og Milan mætast í hatrömmum erkifjenda- og nágrannaslag næsta sunnudag.

„Við áttum lélegan fyrri hálfleik og þjáðumst mikið en náðum að bæta okkur í seinni hálfleik og uppskárum eftir því," sagði Gattuso við Mediaset Premium að leikslokum.

„Roma er með mjög flott lið og við þurftum að leggja allt í sölurnar til að taka stigin heim."

Gattuso og lærisveinar hans fara ekki heim eftir sigurinn, því þeir eiga annan leik á Ólympíuleikvanginum á miðvikudaginn. Þar mæta þeir Lazio í undanúrslitum ítalska bikarsins, en fyrri leik liðanna lauk með markalausu jafntefli á San Siro. Milan mætir svo Arsenal í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn eftir viku.

„Arsenal tapaði 3-0 í dag en við erum ekki Manchester City. Við lítum á þetta sem orrustu, við þurfum að setja hjálmana á okkur og mæta tilbúnir í stríð."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner