mán 25. apríl 2016 11:30
Fótbolti.net
Líklegt byrjunarlið Stjörnunnar - Mörg spurningamerki
Daníel Laxdal.
Daníel Laxdal.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Karl Finsen, Heiðar Ægisson og Arnar Már Björgvinsson.
Ólafur Karl Finsen, Heiðar Ægisson og Arnar Már Björgvinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við teljum niður í Pepsi-deildina með því að kynna liðin til leiks eftir því hvar þeim er spáð. Við veltum fyrir okkur líklegum byrjunarliðum í upphafi móts. Í öðru sætinu spáum við Stjörnunni en líklega er erfiðast að spá fyrir um byrjunarlið Stjörnunnar af öllum liðum í deildinni.


Sveinn Sigurður Jóhannesson og Guðjón Orri Sigurjónsson hafa varið mark Stjörnunnar í vetur en á dögunum samdi Duwayne Oriel Kerr við félagið. Kerr, sem á landsleiki með Jamaíka, bíður ennþá eftir leikheimild en hann mun verja markið í sumar.

Heiðar Ægisson og Jóhann Laxdal eru að berjast um hægri bakvörðinn og líklegt er að sá fyrrnefndi hefji mótið. Grétar Sigfinnur Sigurðarson, Daníel Laxdal og Brynjar Gauti Guðjónsson koma til greina í hjarta varnarinnar og líklegast er að þeir tveir fyrrnefndu verði í byrjunariðinu. Hörður Árnason er vinstri bakvörður en Brynjar Már Björnsson hefur einnig spilað talsvert þar í vetur.

Möguleikarnir á miðjunni eru margir. Baldur Sigurðsson og Eyjólfur Héðinsson eru báðir komnir heim til Íslands eftir dvöl í atvinnumennsku í Danmörku. Þeir koma sterklega til greina á miðjuna sem og Halldór Orri Björnsson sem hefur spilað mikið á miðjunni í vetur. Þorri Geir Rúnarsson hefur verið mikið meiddur á undirbúningstímabilinu en hann er að komast í gang. Hilmar Árni Halldórsson hefur átt góða takta á undirbúningstímabilinu en hann og Veigar Páll Gunnarsson berjast um stöðuna fyrir aftan framherjann. Þeir gætu þó einnig leikið í öðrum stöðum.

Frammi og á köntunum er baráttan mjög hörð um sæti í byrjunarliðinu og ýmsir kostir í stöðunni. Ævar Ingi Jóhannesson og Arnar Már Björgvinsson gera báðir sterkt tilkall á hægri kantinn. Ólafur Karl Finsen byrjar líklega á vinstri kanti en Hilmar Árni, Halldór Orri og fleiri koma líka til greina þar. Fremst eru Guðjón Baldvinsson og Jeppe Hansen að berjast um sæti í liðinu og ljóst er að Stjarnan er með góða kosti á bekknum til að breyta leikjum í sumar.
Athugasemdir
banner
banner