Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 25. apríl 2016 21:26
Ívan Guðjón Baldursson
Valur meistari meistaranna eftir sex marka leik
Valur, meistarar meistaranna 2016.
Valur, meistarar meistaranna 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haukur Páll Sigurðsson hampar sigurlaununum.
Haukur Páll Sigurðsson hampar sigurlaununum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur 3 - 3 FH (4-1 í vítaspyrnukeppni)
0-1 Sam Hewson ('2)
1-1 Kristinn Freyr Sigurðsson ('18, víti)
2-1 Sigurður Egill Lárusson ('21)
2-2 Atli Guðnason ('59)
2-3 Atli Guðnason ('81)
3-3 Guðjón Pétur Lýðsson ('89)
Skoðaðu textalýsingu frá leiknum

Mögnuðum úrslitaleik var að ljúka í Meistarakeppni karla þar sem Valsmenn voru krýndir meistarar meistaranna í níunda sinn.

Sam Hewson kom FH-ingum yfir í upphafi leiks en Kristinn Freyr Sigurðsson jafnaði fyrir Val rúmum stundarfjórðungi síðar.

Kristinn skoraði úr vítaspyrnu eftir að dæmt hafði verið á Kassim Doumbia innan teigs, en tveimur mínútum síðar var Sigurður Egill Lárusson búinn að koma heimamönnum yfir eftir góða sendingu frá Bjarna Ólafi Eiríkssyni.

Valsarar komust nokkrum sinnum nálægt því að bæta þriðja markinu við í fyrri hálfleik en það tókst ekki. FH-ingar komust einnig nálægt því að jafna þegar Bjarni Ólafur bjargaði á línu eftir aukaspyrnu frá Jeremy Serwy. Þá þurfti Nikolaj Hansen, danskur sóknarmaður Vals, að fara af velli rétt fyrir leikhlé vegna meiðsla. Rolf Toft tók hans stað í fremstu víglínu.

Liðin skiptust á að sækja í upphafi síðari hálfleiks en það var kempan Atli Guðnason sem jafnaði á 59. mínútu eftir að hafa fengið laglega stoðsendingu frá Davíð Þóri Viðarssyni. Eftir jöfnunarmarkið róaðist leikurinn talsvert niður þar til á lokakaflanum, þegar Atli Guðna gerði sitt annað mark eftir aðra laglega stoðsendingu frá Davíð og voru gestirnir úr Hafnarfirðinum komnir yfir.

Valur fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan teig á lokamínútum leiksins eftir að Steven Lennon hafði verið dæmdur brotlegur. Guðjón Pétur Lýðsson skoraði beint úr spyrnunni og þá þurfti að skjóta upp á sigurvegara í vítaspyrnukeppni.

FH-ingar klúðruðu tveimur fyrstu spyrnunum sínum þegar Steven Lennon og Bergsveinn Ólafsson skutu báðir í slá, en Valsarar skoruðu úr fyrstu fjórum spyrnunum sínum og eru því meistarar meistaranna.
Athugasemdir
banner
banner