Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 25. apríl 2017 17:30
Magnús Már Einarsson
Viðar Jóns: Okkar að afsanna spána
Viðar Jónsson.
Viðar Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Miðað við síðasta sumar og Lengjubikarinn í vetur er þetta fullkomlega eðlileg spá," segir Viðar Jónsson þjálfari Leiknis F. en liðinu er spáð ellefta sæti í Inkasso-deildinni í sumar í spá þjálfara og fyrirliða.

Sjá einnig:
Spá þjálfara og fyrirliða í Inkasso-deildinni: 11. sæti

„Nú er það okkar að afsanna spána og ég hef fulla trú að við gerum það. Markmið okkar er klárlega að tryggja okkur í deildinni sem fyrst, gera betur en í fyrra og ekki síst að brosa og njóta."

Leiknismenn björguðu sér frá falli eftir góðan endasprett í fyrra og 7-2 sigur í lokaumferðinni. Nokkrar breytingar hafa orðið á hópnum síðan þá.

„Við náðum að halda í kjarnann af íslensku leikmönnunum og besta erlenda leikmanninum frá því í fyrra. Við höfum lagt mikla áherslu á að styrkja þann hóp sem við höfum haft með betri þjálfun og betri umgjörð. Á ekki von á öðru en það skili sér í betra liði í sumar," sagði Viðar.

Fáskrúðsfirðingar hafa góða reynslu af því að hafa spænska leikmenn í liði sínu og þrír slíkir eru í hópnum núna. Þar af eru tveir sem komu til félagsins í vetur. „Spánverjarnir hafa hentað okkur ágætlega og sambönd okkar þangað eru orðin nokkuð góð," sagði Viðar sem útilokar ekki frekari liðsstyrk fyrir mót.

„Við erum opnir fyrir styrkingum og erum enn að skoða ákveðna möguleika."

Í vetur kom pólski markvörðurinn Robert Winogrodzki til Leiknis en hann meiddist á hendi gegn Breiðabliki í Lengjubikarnum á dögunum. Meiðslin litu illa út í fyrstu en staðan er betri hjá Robert í dag.

„Hún er ótrúlega góð. Ég sagði í viðtali eftir leikinn gegn Blikum að hann væri pottþétt brotinn en svo var sem betur fer ekki. Hann fór úr lið og hefur verið að koma ferskur til baka."

Leiknismenn mæta nýliðum Gróttu í 1. umferðinni þann 6. maí en Viðar reiknar með að Inkasso-deildin í sumar verði fjörug.

„Ég hef mikla trú á að deildin verði spennandi og skemmtileg. Ég held að Keflavík, Fylkir og Þróttur berjist um dolluna. Annars held ég að deildin verði jöfn og muni ráðast á toppi og botni í síðustu umferðinni," sagði Viðar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner