Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 25. apríl 2018 14:00
Magnús Már Einarsson
Gylfi í viðtali um HM: Fínt að mæta Argentínu í fyrsta leik
52 dagar í fyrsta leik Íslands á HM
Icelandair
Gylfi er ánægður með að mæta Argentínu í fyrsta leik.
Gylfi er ánægður með að mæta Argentínu í fyrsta leik.
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Ramiro Funes Mori varnarmaður Everton og argentínska landsliðsins.  Hann gæti mætt Gylfa í sumar.
Ramiro Funes Mori varnarmaður Everton og argentínska landsliðsins. Hann gæti mætt Gylfa í sumar.
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson er bjartsýnn á að íslenska landsliðið geti komist upp úr riðlinum á HM í sumar. Fótbolti.net hitti Gylfa á æfingasvæði Everton í síðasta mánuði og rædda möguleika Íslands á HM í sumar þar sem andstæðingarnir verða Argentína, Nígería og Króatía.

„Möguleikarnir eru fínir. Þetta eru þrír leikir á móti toppliðum. Þetta eru allt mismunandi lið. Ef við náum jákvæðum úrslitum í fyrsta leik þá er allt mögulegt," sagði Gylfi við Fótbolta.net.

„Við sýndum það á EM þegar við náðum jákvæðum úrslitum gegn Portúgal og rétt komum okkur upp úr riðlinum. Ef það verður svipuð stemning og við náum svipuðum árangri í fyrstu tveimur leikjunum á EM þá held ég að við eigum góðan séns."

Hlegið þegar Króatía kom upp
Króatía og Ísland mætast enn einu sinni á HM í sumar. Gylfi er liðsfélagi Nikola Vlasic hjá Everton en hann hefur verið að stíga sín fyrstu skref með landsliði Króatíu.

„Við hlógum svolítið þegar var dregið. Okkur datt í hug að við yrðum með Króatíu sem gerðist," sagði Gylfi.

Hjá Everton er einnig argentínski varnarmaðurinn Ramiro Funes Mori en hann er kominn á fulla ferð eftir að hafa slitið krossband í fyrra. Funes Mori verður væntanlega í argentínska landsliðshópnum gegn Íslandi í sumar og Gylfi gæti mætt honum.

„Það væri mjög gaman. Hann er frábær leikmaður sem hefur verið í erfiðum meiðslum. Hann hefur staðið sig vel í þeim leikjum sem hann hefur spilað í endurkomunni og vonandi verður hann í toppmálum í sumar."

Gylfi telur að Argentínumenn séu kokhraustir fyrir leikinn við Ísland í Moskvu þann 16. júní. „Ég held það. Þeir búast örugglega við erfiðum leik en þegar þú ert frá Argentínu þá myndir þú halda að þú ættir að vinna Ísland," sagði Gylfi en má búast við vanmati frá Argentínu?

„Það er fínt ef þeir vanmeta okkur og það spilast í hendurnar á okkur en eftir EM í Frakklandi vita lið meira um okkur og vita við hverju má búast við frá okkur. Ef þeir vanmeta okkur hins vegar þá er það fínt," sagði Gylfi.

Fínt að byrja gegn Argentínu
Gylfi er ánægður með að fá Argentínu strax í fyrsta leik í riðlinum. „Ég held að það sé mjög fínt fyrir okkur að klára þann leik. Það er mikil umfjöllun og mikil spenna að spila fyrsta leikinn á HM. Það er fínt að gera það á móti Argentínu. Ef við náum góðum úrslitum þá setur það næstu tvo leiki vel upp fyrir okkur."

52 dagar eru í fyrsta leik Íslands á HM en Gylfi segir að mótið hafi oft komið upp í umræðunni í Englandi í vetur. „Það er alltaf verið að minnast á þetta. Ekki bara í klefanum heldur eru fjölmiðlar mikið að spyrja út í þetta og velta sér upp úr þessu. Það er mikið af viðtölum sem eru bara um HM og mikill fótboltaáhugi," sagði Gylfi við Fótbolta.net á dögunum.
Athugasemdir
banner