Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mið 25. maí 2016 14:15
Þórður Már Sigfússon
Portúgalar ætla ekki að vanmeta Íslendinga
,,Hverjir slógu út Hollendinga?" spyr þjálfarinn sigurvissa fjölmiðlamenn.
Icelandair
Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgals.
Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgals.
Mynd: Getty Images
Joao Moutinho.
Joao Moutinho.
Mynd: Getty Images
Eftir 20 daga munu Íslendingar spila sinn fyrsta Evrópumótsleik þegar att verður kappi gegn Portúgölum í Saint Etienne í Frakklandi.

Flestir búast við portúgölskum sigri og hrósuðu fjölmiðlar á vestanverðum Íberíuskaganum happi í desember síðastliðnum þegar ljóst varð að andstæðingar Ronaldo og félaga í riðlakeppni EM yrðu Íslendingar, Austurríkismenn og Ungverjar.

Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgala, er á öndverðum meiði og telur reyndar allt tal um auðvelda andstæðinga stórhættulegt.

„Öll lið geta gert okkur erfitt fyrir. Það er rangt að búast við auðveldum leikjum í riðlakeppninni,” sagði Santos við sigurvissa portúgalska fjölmiðlamenn og innti þá eftir skilgreiningu á auðveldum andstæðingum.

„Ég skil ekki skilgreininguna á auðveldum riðli. Ég hef verið í riðlum sem fyrirfram voru taldir auðveldir en úrslitin sýndu fram á annað. Ég hef einnig verið í erfiðum riðlum þar sem ég náði góðum úrslitum,” bætti Santos við og sagði sparkspekinga einblína um of á fortíðarsigra annarra þjóða.

„Ef andstæðingar okkar í riðlinum væru Hollendingar, Austurríkismenn og Ungverjar myndi fólk væntanlega telja riðilinn nokkuð erfiðan. En hverjir slógu Hollendinga út úr undankeppninni? Jú, Íslendingar. Þeir voru betri og enduðu mun ofar í riðlinum.”

Santos segir að hann og aðstoðarmenn hans hafi leikgreint væntanlega andstæðinga mörgum sinnum og geti sagt með fullri vissu að öll liðin í riðlinum eru sterk.

„Íslendingar eru ótrúlega skipulagðir og lúta stjórn hins mjög reynda Lars Lagerback. Austurríkismenn eru líka mjög sterkir en liðið tapaði ekki leik í undankeppninni og svo eru Ungverjar mjög verðugir andstæðingar en leikmennirnir gefa allt sitt í alla leiki."

Santos vill þó ekki draga úr sigurlíkum síns lið enda er það sigurstranglegasta liðið í riðlinum þrátt fyrir allt.

„Auðvitað erum við sigurstranglegasta þjóðin en ef við nálgumst þetta verkefni með hálfkæringi munum við lenda í miklum vandræðum."

Joao Moutinho, leikmaður Mónakó og einn af meginstoðum portúgalska landsliðsins, er sammála Santos.

„Margir hafa sagt að við séum í auðveldum riðli en það er af og frá. Fótboltaleikir eru aldrei auðveldir. Fyrsti leikurinn er gegn Íslendingum sem slógu Hollendinga út og enduðu ofar en Tyrkir í undanriðlinum. Landslið þeirra er skipað góðum leikmönnum sem spila góðan fótbolta.”
Athugasemdir
banner
banner
banner