Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 25. júní 2015 12:40
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Gústi Gylfa: Ekkert sérstakt en er raunveruleikinn
Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis.
Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ivanovski er farinn til Svíþjóðar.
Ivanovski er farinn til Svíþjóðar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emil í leik í Grafarvoginum.
Emil í leik í Grafarvoginum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það reynir heldur betur á leikmannahópinn hjá Fjölni um þessar mundir. Eftir frábæra byrjun í Pepsi-deildinni hefur kvarnast úr hópnum. FH hefur kallað miðjumanninn Emil Pálsson til baka úr láni en á dögunum yfirgaf varnarmaðurinn Daniel Ivanovski félagið af fjölskylduástæðum.

Ofan á þetta eru leikbönn farin að taka sinn toll en í síðasta leik gegn Víkingi, sem tapaðist 2-0, þurfti Ágúst Gylfason þjálfari að tefla fram nýju miðvarðapari.

„Þetta er í sannleika sagt ekkert sérstakt. Við höfum verið að byggja upp lið og fáum svo þetta. Við erum komnir í ágætis stöðu og nokkuð fúlt að þurfa að fara að gera breytingar. Það er spurning hvaða áhrif það hefur á hópinn og okkar frammistöðu," segir Ágúst.

„Það er í okkar höndum að halda þessu gengi áfram. Í síðasta leik þurftum við að skipta báðum hafsentunum, það er erfitt og það reyndi á hópinn. Við náðum ekki að klára þann leik eins og við óttuðumst."

Ég er ekki þannig gerður
Ivanovski er Makedóníumaður en fjölskylda hans er í Svíþjóð. Hann æfir nú með Mjallby í þeirri von að fá aftur samning hjá sænska félaginu.

„Hann vildi losna frá okkur vegna fjölskylduástæðna sem ég ætla ekki að fara nánar út í. Það voru fjölskylduástæður fyrir því að hann þurfti að fara heim. Hann er með konu og barn úti í Svíþjóð sem gátu ekki verið með honum hérna. Það var erfitt fjarsamband," segir Ágúst.

„Við gáfum honum leyfi til að fara til Mjallby. Hann var á samningi og við hefðum getað þvingað hann til að vera hérna. Ég er ekki þannig gerður að ég þvinga menn í eitthvað sem þeir vilja ekki."

Emil einn sá besti sem ég hef þjálfað
Eftir að Sam Hewson, miðjumaður FH, fótbrotnaði tók Fimleikafélagið þá ákvörðun að kalla Emil til baka. Ágúst segist hafa óttast það að missa Emil um leið og hann frétti af fótbroti Hewson.

„Það hvarflaði að mér að það myndi gerast. Maður skilur FH-inga vel að vilja fá hann aftur. Emil er frábær leikmaður, einn sá besti sem ég hef þjálfað. Hann er toppdrengur og allt sem kemur honum nálægt er upp á hundrað," segir Ágúst.

Fjölnir er þegar farið að horfa til þess þegar félagaskiptaglugginn opnar 15. júlí.

„Við erum bæði að leita hér heima og erlendis. Það gengur ágætlega og við munum væntanlega sjá eitthvað gerast í þeim málum um mánaðamótin. Maður hefur verið með liðið í undirbúningi síðan í vetur og að ég tel náð að byggja upp gott lið og góðan hóp. Svo kemur þetta sem smá bakslag og það tekur tíma að búa til sama liðið. Það eru leikmenn þarna fyrir sem leysa þessar stöður, hópurinn verður að taka því. Þetta er bara raunveruleikinn," segir Ágúst.

Blendnar tilfinningar Emils
Emil var í viðtali við Vísi í morgun þar sem hann sagði tilfinningarnar blendnar.

„Það er ánægjulegt að vera kominn aftur í FH en auðvitað eru þetta blendnar tilfinningar og erfitt að skilja við Fjölni nú. Ég sé ekki eftir einni mínútu í Fjölni. Það var mjög vel tekið á móti mér og mér finnst að ég sé orðinn betri fótboltamaður," sagði Emil.

FH er í efsta sæti Pepsi-deildarinnar með 20 stig en Fjölnir er í fjórða sætinu, þremur stigum á eftir. Liðin mætast í næstu umferð á sunnudag en Emil verður ekki með FH þar vegna leikbanns.
Athugasemdir
banner