Nkunku til Barcelona? - Man Utd hefur áhuga á Osimhen - Díaz ánægður á Anfield
   fim 25. júlí 2013 20:20
Brynjar Ingi Erluson
Óli Kristjáns: Eins og dómarastéttin geri ekki mistök
Ólafur Kristjánsson
Ólafur Kristjánsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks í Pepsi-deildinni, var að vonum ánægður með 0-1 sigurinn á Sturm Graz í kvöld, en Breiðablik er þar með komið áfram í næstu umferð í undankeppni Evrópudeildarinnar.

,,Ég er mjög ánægður með það, veit ekki hvort ég er í skýjunum með það eða hvað, en við erum ánægðir með það. Við erum á veitingahúsi að njóta matar og fagna saman og erum mjög sáttir með að hafa klárað þetta einvígi," sagði Ólafur í samtali við Fótbolta.net í kvöld.

,,Þeir áttu þarna eitt færi þarna einn á einn sem Gulli tók frábærlega, annars fannst mér hann ekkert þurfa að fara út í sparivörslur. Við héldum þeim frá færum fannst mér fyrir utan einhverjar fyrirgjafir og þess háttar."

Elfar Árni var rekinn af velli þegar um tuttugu mínútur voru eftir af leiknum, en Ólafur var allt annað en sáttur við dómgæsluna þar. Elfar átti ekki að fá fyrra gula spjaldið, en Tómas Óli Garðarsson braut þá á heimamanni.

,,Það var ekki gult spjald á Elfar. Það sem gerist þar að það eru átök inni í teig og eftir að Grazmaðurinn henti sér í grasið þá var dómarinn eitthvað að fókusera á það sem var að gerast þar og á meðan leikurinn heldur áfram þá fer Tómas Óli sem fer í miðja tæklingu úti á velli og það var Tómas Óli sem braut og við sáum það allir og við komum þeim athugasemdum á framfæri."

,,Það er eins og dómarastéttin geri ekki mistök. Það var alveg sama hvað við reyndum að benda þeim á þetta að það hafi rangur maður fengið gult spjald, þegar Elfar fær gula spjaldið þá hrista þeir bara hausinn og benda manni inn í boðvanginn og biðja mann um að standa þar."

,,Við gerðum athugasemdir við þetta eftir leikinn, en það þarf að grípa inn í þetta. Það er ekki eðlilegt að gefa röngum manni gult spjald fyrir eitthvað sem hann gerði ekki en við spiluðum tíu á móti ellefu síðustu tuttugu mínúturnar og það var frábært að landa þessu og þeir ógnuðu okkur ekki neitt eftir það."


Breiðablik mætir Aktobe frá Kasakstan í næstu umferð, en Ólafur er ekkert byrjaður að spá í þeim. Næsti leikur liðsins er í Pepsi-deildinni gegn ÍBV á sunnudag og gæti vel verið að hann hvíli nokkra leikmenn þar.

,,Aktobe í Kasakstan er ekki komið upp í hugann ennþá, en þetta verður bara spennandi. Við stillum upp með ellefu á móti ÍBV það er ljóst, hvort að einhverjir af þeim sem spiluðu í kvöld hvíli er ekkert ólíklegt en við erum búnir að vera að rúlla liðinu í undanförnum leikjum og það hefur gengið vel."

,,Ég treysti öllum leikmannahópnum og við eigum góða stráka í 2. flokki líka og þeir vita hvernig fótbolta við viljum spila þannig við dílum bara við þetta,"
sagði Ólafur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner