mán 25. júlí 2016 16:20
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Haukur markahæstur hjá AIK: Stríðir framherjunum
Haukur fagnar markinu sínu í gær.
Haukur fagnar markinu sínu í gær.
Mynd: Getty Images
Haukur skorar með skalla.
Haukur skorar með skalla.
Mynd: Getty Images
Haukur á landsliðsæfingu.
Haukur á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Hægri bakvörðurinn Haukur Heiðar Hauksson skoraði fyrsta mark AIK í 3-0 sigri á Hammarby í nágrannaslag í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Haukur er búinn að skora fjögur mörk í sænsku úrvalsdeildinni í ár og tvö í bikarnum en hann er markahæsti leikmaðurinn í leikmannahópi AIK á tímabilinu.

„Ég er aðeins að stríða framherjunum og spyrja hvað þeir eru með mörg mörk. Þeir eru ekki ánægðir með þetta," sagði Haukur léttur í bragði við Fótbolta.net í dag.

Haukur skoraði með skalla eftir hornspyrnu í gær en það mark var líkt hinum mörkunum hans í sumar.

„Þetta hefur allt komið með skalla eftir horn. Þetta er yfirleitt mjög svipað. Það er mikið um svæðisdekkningar hjá liðum hér í Svíþjóð og ég hef einhverneginn náð að rölta aleinn og skora frekar auðveldlega."

Fékk ekki að fara inn í teiginn í hornum í fyrra
Haukur Heiðar skoraði ekkert þegar hann spilaði sitt fyrsta tímabil með AIK í fyrra en hann hefur raðað inn mörkunum í ár. „Í fyrra var ég alltaf til baka í hornum. Þjálfarinn ákvað að breyta til núna og hann getur ekki séð eftir því," sagði Haukur.

AIK er eftir sigurinn í fimmta sæti í Svíþjóð, fimm stigum frá toppnum. Hammarby er hins vegar í 14. sæti af sextán liðum og í fallbaráttu. Mikill hiti er þegar þessi lið eigast við í nágrannaslag í Stokkhólmi.

„Það er alltaf mikil stemning á þessum leikjum og fullur völlur. Það er alltaf gaman að skora og sérstaklega í þessum leik."

Haukur skoraði markið fyrir framan hörðustu stuðningsmenn Hammarby en hann fagnaði þó ekki í andlitið á þeim. „Ég hljóp fyrir framan þá en ég var ekkert að ögra þeim, þá hefði allt orðið vitlaust sennilega," sagði Haukur.

„Það eru alltaf læti í þessum leikjum og yfirleitt einhver slagsmál. Það gengur ekki vel hjá Hammarby og eftir leik hópuðust stuðningsmenn þeirra að þjálfaranum. Það þurfti einhverja öryggisverði þar."

Draumur að vera í EM hópnum
Haukur Heiðar var í íslenska landsliðshópnum á EM í Frakklandi en kom ekki við sögu.

„Maður vildi vera í hópnum og var búinn að stefna lengi að þessu. Það var þvílíkur draumur þegar það rættist. Maður er stoltur að hafa verið hluti af þessum hóp þó að maður hafi ekki fengið að spila. Það er erfitt að gera breytingar þegar liðið er að spila eins og það gerði," sagði Haukur sem ætlar að láta meira til sín taka í landsliðinu í framtíðinni.

„Maður stefnir áfram á að vera í landsliðshópnum og reynir að koma sér í byrjunarliðið. Það þýðir ekkert annað."

Smelltu hér til að sjá myndband af markinu í gær

Hér að neðan má sjá myndir af Hauki að skora.
Athugasemdir
banner
banner
banner