Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 25. september 2017 10:30
Magnús Már Einarsson
Kristján Ómar: Get vel séð fyrir mér einhverjar breytingar
Kristján Ómar var ráðinn þjálfari Hauka í síðustu viku.
Kristján Ómar var ráðinn þjálfari Hauka í síðustu viku.
Mynd: Haukar
Kristján Ómar spilaði með Haukum í áraraðir.
Kristján Ómar spilaði með Haukum í áraraðir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta starf er frábært tækifæri fyrir mig enda hefur því eingöngu verið sinnt af virkilega færum þjálfurum alla þessa öld og ég er bara þakklátur fyrir að komast í hóp þeirra manna," sagði Kristján Ómar Björnsson, nýráðinn þjálfari Hauka, í viðtali við Fótbolta.net.

Kristján Ómar var í síðustu viku ráðinn þjálfari Hauka en hann tekur við af Stefáni Gíslasyni sem lét af störfum eftir leikinn gegn Selfossi í lokaumferðinni í Inkasso-deildinni um helgina.

„Stefán Gíslason hefur gert frábæra hluti á sínu fyrsta ári í meistaraflokksþjálfun og vonandi get ég fylgt þeim eftir. Ég heyri það á stjórnarmönnunum að þeir eru spenntir fyrir því að fá heimamann í þetta starf, enda Óli Jó verið eini uppaldi Haukamaðurinn sem hefur þjálfað liðið í seinni tíð, og ég mun gera hvað ég get til að uppfylla væntingar þeirra."

„Auðvitað þekki ég félagið, og flesta leikmenn þarna það vel að það fer líklega á svig við einhver persónuverndarlög, og tel allar forsendur vera fyrir hendi hjá Haukum til þess að gera góða hluti og njóta þeirra,"
sagði Kristján Ómar sem lék með Haukum lengst af á sínum ferli.

Í sumar var Kristján Ómar spilandi þjálfari hjá Álftanesi sem endaði í 3. sæti í 4. deildinni.

„Þetta ár hjá Álftanesi var fullkomið frá A-Æ má segja. Einum úrslitum frá draumi líkast. Félagið og hópurinn þar reyndist mér hinn fullkomnni vettvangur til þess að heildstætt prufukeyra mína aðferðafræði sem hefur verið lengi í mótun. Ég hefði glaður haldið áfram starfi mínu þar og skil við félagið með tregða."

„Ég vil nýta tækifærið og hvetja alla metnaðarfulla þjálfara til þess að kynna sér aðstæður á Álftanesi. Þær komu mér mjög á óvart þrátt fyrir að ég búi í næsta sveitarfélagi og lifi og hrærist í þessum fótboltaheimi. Falin perla."


Kjarninn í leikmannahópi Hauka hefur verið nokkuð svipaður undanfarin ár. Verða breytingar á hópnum í vetur?

„Stærstur hluti leikmanna með samning út næsta ár eða lengur en ég get vel séð fyrir mér einhverjar breytingar á hópnum. Ég mun kynna mínar hugmyndir fyrir hópnum á næstu dögum og gefa leikmönnum tækifæri til þess að melta þær í fríinu. Ég hef eingöngu áhuga á því að vinna með mönnum sem standa heilshugar við það sem þeir taka sér fyrir hendur og eru tilbúnir að leggja á sig vinnu."

Haukar voru lengi vel nálægt toppbaráttunni í Inkasso-deildinni í sumar. Eftir döpur úrslit í lok móts varð 7. sætið niðurstaðan í deildinni. Geta Haukar gert atlögu að því að fara upp í Pepsi-deildina næsta sumar?

„Að fullyrða eða spá fyrir um það væri að samtímis spá fyrir um gengi og þróun styrkleika allra hinna liðanna í deildinni sem er einfaldlega ómögulegt. Ég lít fyrst og fremst á það sem mitt starf að hjálpa leikmönnunum að bæta sig, skapa liðsheild og búa til samstíga lið inni á vellinum. Síðan er bara að sjá hverju sú vinna skilar í baráttunni við hin liðin," sagði Kristján Ómar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner