Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 25. október 2016 17:30
Magnús Már Einarsson
29 ára þjálfari með þriðja besta árangurinn í Þýskalandi
Julian Nagelsmann.
Julian Nagelsmann.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Hinn 29 ára gamli Julian Nagelsmann hefur gert frábæra hluti með Hoffenheim í þýsku Bundesligunni á þessu tímabili. Hoffenheim er í 4. sæti deildarinnar eftir átta umferðir og í Þýskalandi er byrjað að tala um að liðið geti óvænt blandað sér í baráttu um Evrópusæti.

Útlitið var ekki svona bjart hjá Hoffenheim í febrúar þegar liðið var í næstneðsta sæti í Bundesligunni, fimm stigum frá öruggu sæti. Nagelsmann hafði gert samning um að taka við Hoffenheim í sumar en í febrúar ákvað stjórn félagsins að láta hann taka strax við.

Sú ákvörðun borgaði sig því Hoffenheim bjargaði sér frá falli í vor. Byrjun liðsins á þessu tímabili hefur síðan verið framar björtustu vonum. Frá því að Nagelsmann tók við í febrúar eru einungis Bayern og Dortmund með betri árangur eins og sjá má á töflunni neðst í fréttinni.

Varð að hætta í fótbolta
Nagelsmann fór út í þjálfun eftir að hann þurfti að leggja skóna á hilluna þegar hann var tvítugur. Nagelsmann meiddist þá illa á hné í leik með varaliði Augsburg. Þjálfarinn þar var Thomas Tuchel, núverandi þjálfari Borussia Dortmund.

Tuchel útvegaði Nagelsmann starf sem njósnari hjá Augsburrg eftir að skórnir fóru á hilluna. Hann fór þó fljótlega til 1860 Munchen þar sem hann þjálfaði U17 ára lið félagsins.

Árið 2010 fór Nagelsmann til Hoffenheim þar sem hann þjálfaði unglingalið félagsins. FC Bayern vildi fyrir nokkrum árum fá Nagelsmann til að þjálfa U23 ára lið sitt en hann ákvað að halda tryggð við Hoffenheim. Eftir frábæran árangur með U19 ára lið Hoffenheim ákvað stjórn félagsins árið 2015 að Nagelsmann væri framtíðarþjálfari hjá aðalliði félagsins. Hjá Hoffenheim hefur Nagelsmann búið til magnaða liðsheild á stuttum tíma.

„30% af þjálfun er taktík en 70% snýst um mannleg samskipti. Allir leikmenn þurfa mismunandi hluti til að ná því besta fram og það þarf að taka tillit til þess. Þegar þú ert að spila í þessari deild þá þýða gæði leikmanna að þeir spila vel ef að taktíkin er góð og þeim líður vel andlega," sagði Nagelsmann í viðtali í ágúst.

Vinnur eins og bakari
Nagelsmann segist vera óhræddur við að prófa nýja hluti til að sjá hvað virkar og hvað ekki. „Ég vinn eins og bakari. Ég blanda hlutum saman, set þá í ofninn og sé hvað kemur út," sagði Nagelsmann á dögunum.

Uppskriftin hjá bakaranum gengur frábærlega í augnablikinu og ef Nagelsmann heldur áfram á sömu leið má reikna með að stóru liðin bjóði honum starf á næstu árum.



Athugasemdir
banner
banner
banner