þri 25. október 2016 14:30
Elvar Geir Magnússon
De Bruyne ekki með gegn Mourinho
De Bruyne verður fjarri góðu gamni í grannaslagnum.
De Bruyne verður fjarri góðu gamni í grannaslagnum.
Mynd: Getty Images
Staðfest hefur verið að Kevin De Bruyne mun ekki spila með Manchester City gegn Manchester United í grannaslag í enska deildabikarnum á morgun. Hann á við meiðsli að stríða í kálfa.

Belginn var tekinn af velli í hálfleik í 1-1 jafnteflinu gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag eftir að hann fékk högg á kálfann.

Hann getur því ekki mætt sínum fyrrum knattspyrnustjóra, Jose Mourinho sem var yfir honum hjá Chelsea. Mourinho taldi sig ekki hafa not fyrir De Bruyne sem var seldur til Wolfsburg.

De Bruyne, sem er tilnefndur til gullknattarins, segist ekki þurfa að sanna neitt fyrir Mourinho því hann hafi þegar gert það.

„Það eru engin vandamál milli mín og Jose. Ég lít á jákvæðu hliðarnar og þetta var mikil reynsla fyrir mig. Þetta kennir manni að takast á við það að vera ekki í myndinni," segir De Bruyne sem segist trúa því að Mourinho hafi skjátlast um sig.

„Ég vildi alltaf spila. Ég hef spilað hundruðir leikja á ferlinum þó ég sé bara 25 ára og ég hef svarað býsna vel. Þegar ég var hjá Chelsea átti ég marga leiki að baki en félagið horfði frekar á aldurinn en reynsluna sem ég hafði."

Annars er það að frétta af leikmannamálum City fyrir leikinn á morgun að Pablo Zabaleta er tæpur fyrir leikinn og þá segir Pep Guardiola að það þurfi að fara varlega með Vincent Kompany sem hefur verið að glíma við erfið meiðsli.
Athugasemdir
banner
banner
banner