Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 25. október 2016 10:56
Elvar Geir Magnússon
Elías Már stal senuninni fyrir framan urmul útsendara
Elías Már hefur farið á kostum með Gautaborg.
Elías Már hefur farið á kostum með Gautaborg.
Mynd: Getty Images
Elías fagnar marki með U21-landsliði Íslands.
Elías fagnar marki með U21-landsliði Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ómarsson var betri en Isak. Isak sást varla í leiknum," sagði Mats Gren, íþróttastjóri Gautaborgar í Svíþjóð.

Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson stal senunni þegar Gautaborg vann 1-0 sigur gegn AIK í gær en hann skoraði sigurmark leiksins eins og við greindum frá í gær.

Útsendarar og njósnarar frá hátt í 70 félögum voru á leiknum í gær til að horfa á Alexander Isak hjá AIK, einn allra efnilegasta leikmann Svía. Isak er framherji sem varð 17 ára í síðasta mánuði.

Hann lét lítið að sér kveða í leiknum í gær á meðan Elías, sem hefur gert 5 mörk í 10 leikjum fyrir Gautaborg, átti flottan dag.

Hefði AIK unnið leikinn hefði liðið verið fjórum stigum á eftir toppliði Malmö en titilvonir AIK eru nú engar eftir tapið.

Gautaborg í viðræðum um kaup á Elíasi
Elías, sem var lykilmaður hjá U21-landsliði Íslands í nýliðinni undankeppni, hefur leikið ákaflega vel síðan hann kom til Gautaborgar á lánssamningi frá Valerenga í Noregi. Samkvæmt heimildum Aftonbladet í Svíþjóð er Gautaborg með forkaupsrétt á Elíasi til 15. nóvember og getur keypt hann fyrir rúmlega 19 milljónir íslenskra króna.

„Þetta er raunhæft verð. Ég er byrjaður í viðræðum við umboðsmann hans," sagði Gren án þess að vilja gefa upp upphæð. „Svo veltur þetta náttúrulega á því að leikmaðurinn vilji koma til okkar og sé með raunhæfar launakröfur."

Sjálfur hafði Elías Már, sem er 21 árs, þetta að segja um málið:

„Umboðsmaður minn Ólafur Garðarsson og Gautaborg eru í viðræðum. Ég reyni að hugsa ekki mikið um það svo það hafi ekki áhrif á fótboltann hjá mér. Ég vil vera hérna áfram og málin munu skýrast á næstu vikum," segir Elías.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner