Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   mið 25. október 2017 15:30
Magnús Már Einarsson
Óvíst hvort Davíð Rúnar og Turkalj verði með KA næsta sumar
Vonast til að halda öðrum samningslausum
Davíð Rúnar var fyrirliði KA árið 2016.
Davíð Rúnar var fyrirliði KA árið 2016.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Vedran Turkalj.
Vedran Turkalj.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óvíst er hvort miðverðirnir Davíð Rúnar Bjarnason og Vedran Turkalj verði áfram hjá KA næsta sumar. Báðir eru þeir að verða samningslausir.

Hinn 26 ára gamli Davíð var fyrirliði KA þegar liðið fór upp úr Inkasso-deildinni árið 2016. Í sumar settu meiðsli strik í reikninginn hjá honum en hann skoraði eitt mark í níu leikjum í Pepsi-deildinni.

„Hann er í pásu. Hann ætlar ekkert að vera í fótbolta fyrr en í janúar í fyrsta lagi. Það er brjálað að gera hjá honum í vinnunni sem verkfræðingur," sagði Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA í samtali við Fótbolta.net í dag.

Króatíski varnarmaðurinn Vedran Turkalj kom til KA í júlí eftir að Guðmann Þórisson meiddist. Hinn 29 ára gamli Turkalj skoraði eitt mark í tíu leikjum í Pepsi-deildinni en ekki er ljóst hvort hann verði áfram hjá KA.

„Hann treysti sér ekki til að svara neinu fyrr en eftir áramót og hann er á bið þangað til. Hann er kostur sem við erum tilbúnir að skoða. Hann ætlar að bíða eftir að glugginn loki í Austur-Evrópu í lok janúar áður en hann ákveður sig," sagði Sævar.

Vonast til að klára samninga við aðra
Markvörðurinn Srdjan Rajkovic og bakvörðurinn Hrannar Björn Steingrímsson verða einnig samningslausir í næstu viku. Hrannar skoraði eitt mark í 19 leikjum í sumar á meðan hinn 41 árs gamli Rajkovic spilaði alla leiki nema einn. Sævar reiknar með að þeir verði áfram.

„Ég á von á því. Við ætlum að setjast niður með þeim í dag," sagði Sævar.

Serbneski bakvörðurinn Darko Bulatovic og danski sóknarmiðjumaðurinn Emil Lyng verða einnig samningslausir á næstunni. Darko skoraði eitt mark í átján leikjum en Emil Lyng skoraði níu mörk í tuttugu leikjum. Emil sagði í viðtali í Danmörku á dögunum að hann sé að skoða aðra möguleika en Sævar er bjartsýnn á ða KA nái að halda honum og Darko.

„Þetta er leikur að tölum fram og til baka og ég held að það klárist alveg," sagði Sævar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner