Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 26. mars 2017 21:32
Elvar Geir Magnússon
Titringur í Noregi eftir hörmulega frammistöðu - Lagerback segist bera ábyrgðina
Erfið byrjun hjá Lalla.
Erfið byrjun hjá Lalla.
Mynd: Getty Images
Mikill titringur er meðal fótboltaáhugamanna og sérfræðinga í Noregi eftir 2-0 tapið gegn Norður-Írlandi í undankeppni HM. Noregur er í skítamálum í næst neðsta sæti C-riðils en einu stigin sem liðið hefur fengið komu gegn smáríkinu San Marínó.

„Þetta var niðurlægjandi, veikt og aumkunarvert. Þetta var svo sannarlega verðskuldað tap," segir Bernt Hulsker sem er sérfræðingur norska sjónvarpsins. Hann sagði að Noregur hafi litið betur út í seinni hálfleik því norður-írska liðið hefði slakað á.

Varnarleikur norska liðsins fær mikla gagnrýni í norskum fjölmiðlum en Hulsker segir að sóknarleikurinn hafi ekki verið skárri, þar hafi ekki verið neitt að frétta.

Eins og við var búist lék Lagerback með 4-4-2 leikkerfi eins og hann er þekktur fyrir en frammistaða Noregs var ekkert í líkingu við það sem hann náði út úr íslenska landsliðinu.

Lagerback sagði sjálfur í viðtölum eftir leik að ábyrgðin væri hans. „Ég ber ábyrgð á því að menn mæti með rétt hugarfar inn á völlinn," sagði Lagerback í viðtali eftir leik.

Lagerback er gagnrýndur af norskum sparkspekingum fyrir að hafa farið inn í leikinn, leik sem Noregur varð að vinna, með of varnarsinnað leikkerfi. Verdens Gang gefur Lagerback 4 af 10 í einkunn eftir leikinn í einkunnagjöf sinni.

Nettavisen býður upp á stóra fyrirsögn þar sem auglýst er eftir karakter í norska landsliðinu, einhverjum sem er með norskt hjarta. Þá er talað um „martraðarbyrjun" hjá Lagerback.

Ljóst er að möguleikar Noregs á að komast á HM eru úr sögunni. Litið verður á þá leiki sem eftir eru í undankeppninni sem undirbúningsleiki fyrir næstu undankeppni þegar Lagerback freistar þess að koma Noregi á EM 2020.
Hvernig fer Víkingur - Breiðablik á sunnudag?
Athugasemdir
banner
banner
banner