Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 26. apríl 2017 13:05
Elvar Geir Magnússon
Heimir Guðjóns: Vonum að Kassim verði klár í þriðju umferð
FH ætlar að styrkja vörnina
Kassim missir af byrjun Pepsi-deildarinnar.
Kassim missir af byrjun Pepsi-deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Kyle Cameron.
Kyle Cameron.
Mynd: Getty Images
FH-ingar hafa verið að spila 3-4-3 á undirbúningstímabilinu en fóru aftur yfir í sitt 4-3-3 kerfi í Meistaraleiknum gegn Val á mánudaginn. Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, segir að vegna skorts á miðvörðum hafi hann ekki spilað fyrrnefnda kerfið í þeim leik.

Kassim Doumbia er á meiðslalistanum og missir af byrjun móts.

„Kassim meiddist á móti KR (í Lengjubikarnum) og eins og staðan er í dag þá á ég ekki varnarmenn í þetta kerfi. Ég myndi að sjálfsögðu vilja spila þetta kerfi áfram en á meðan ég á ekki varnarmenn í það þá er þetta erfitt. Þú þarft að vera með þrjá hafsenta og meðan við eigum þá ekki þurfum við að notast við hitt sem við þekkjum," segir Heimir.

„Það er eitthvað basl á rifbeinunum á honum en ég reikna ekki með því að hann verði lengi frá. Við erum að gæla við það að hann geti spilað við Val í þriðju umferðinni. Hann missir pottþétt af leikjunum gegn ÍA og á móti KA. Ef allt er eðlilegt gæti hann orðið klár gegn Val."

Bjarni gæti nýst í vörninni
Hörður Magnússon sagði í útvarpsþætti Fótbolta.net að ekki væri galið að prófa Bjarna Þór Viðarsson í varnarlínunni. Heimir tekur undir að Bjarni hafi ýmsa kosti sem gætu nýst í miðverðinum.

„Algjörlega. Bjarni hefur verið mjög duglegur. Hann fór í aðgerð og hefur verið meiddur. Hann gæti nýst okkur í þessari stöðu. Ef allt gengur upp gæti hann farið að spila í byrjun júní og þá mun ég skoða hvaða stöðu hann leysir best," segir Heimir en Bjarni fór í aðgerð á hné.

Davíð Þór Viðarsson fyrirliði getur leyst af í miðverðinum en skiljanlega vill Heimir helst halda honum á miðjunni.

„Að sjálfsögðu, þar er hann bestur fyrir FH. Hann er leiðtogi liðsins og hæfileikar hans nýtast best inni á miðjunni," segir Heimir sem er að skoða kosti til að bæta við sig í vörninni. Hann segir að nokkur nöfn séu á blaði.

Kyle Cameron gæti komið
Á dögunum var breskur varnarmaður, Kyle Cameron, að æfa með FH-ingum en ekki er ljóst hvort hann komi.

„Það gæti gerst. Við erum að skoða það mál. Það verður örugglega tekin ákvörðun ákvörðun um það í lok vikunnar," segir Heimir en ítarlegt viðtal við hann birtist á morgun.

FH er spáð efsta sæti Pepsi-deildarinnar og á leik gegn ÍA á Akranesi á sunnudag.
Athugasemdir
banner
banner
banner