„Fram er stórveldi í íslenskum fótbolta. Ég er aðeins eldri en þú og Rúnar Kristins er náttúrulega einn af þessum gæjum sem ég fylgdist með þegar ég var unglingur," sagði Jón Páll Pálmason, þjálfari ÍH, við Fótbolta.net í dag eftir að dregið var í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
ÍH úr 3. deild er komið í 16-liða úrslitin og mun þar heimsækja Fram úr Bestu deildinni. „Við erum brattir," segir Jón Pál um þennan áhugaverða leik sem er framundan.
ÍH lagði Hafnir úr 5. deild í gær eftir að hafa unnið sigra á Létti og Ými þar á undan í bikarnum. Öll liðin úr pottinum í dag komu annað hvort úr Bestu deildinni eða Lengjudeildinni, nema ÍH.
„Ég var náttúrulega sætasti strákurinn á ballinu hérna í dag. Ég er vanur því síðan ég fór að sækja böllin í Öldutúnsskóla í 8. bekk og þegar ég var ungur niðri í bæ. Það var aðeins öðruvísi að sjá alla hundana horfa á mig þegar ég kom hingað inn. Það vildu allir fá mig og Rúni fékk mig."
Atli Guðna og Steven Lennon í liðsstjórn
Jón Páll setti út athyglisvert tíst fyrir leikinn á móti Höfnum þar sem hann skrifaði: „Þessir verða ljósbláir á morgun og leiða línuna í tvöfaldri Sacchi línu JP."
Setti hann þar mynd af Atla Guðnasyni og Steven Lennon en þeir eru báðir goðsagnir úr FH. Hvorugur þeirra var hins vegar inn á vellinum í gær, en þeir voru í liðsstjórn.
„Nú starfa ég sem kennari á miðstigi í grunnskóla og við erum alltaf að fara yfir einhverjar skýrslur um að lesskilningur barna og sérstaklega drengja sé ekki upp á marga fiska. Ég hef smá áhyggjur af blaðamönnum því ég sagði að Atli og Lenny myndu leiða sóknarlínuna mína í tvöföldu Sacchi línunni minni. Sem þeir svo sannarlega gerðu því framherjarnir mínir skoruðu fjögur mörk í þessum leik. Ég sé um að skipuleggja varnarleik, 'transition' og föst leikatriði í þessu félagi. Þeir sjá um að stappa stálinu í sóknarmennina og það gekk frábærlega," sagði Jón Páll léttur að venju.
En koma þeir til með að spila í næstu umferð bikarsins?
„Það er enginn séns á að Atli Guðna spili. Hann er 39 ára í líkama sextugs manns. Lenny er búinn að lofa mér því að spila í 16-liða úrslitunum. Fram er hans fyrsta félag á Íslandi og ég er búinn að senda honum skilaboð að núna þurfi hann að standa við stóru orðin og spila með okkur, hvort sem það er korter, klukkutími eða 90 mínútur."
Skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið að mér
ÍH spilar í 3. deild og Jón Páll er spenntur fyrir sumrinu sem er framundan.
„Það verður geggjað gaman hjá okkur. Við vorum í gær með ellefu FH-inga í liðinu, sjö á bekknum og liðsstjórnin öll FH-ingar. Hákon Gunn var fyrirliði hjá mér í gær því Arnar var meiddur, og hann var líka fyrirliði hjá mér á Lottó-mótinu á Akranesi árið 2005 þegar hann var sex ára. Þetta eru allt strákar sem ég hef þjálfað og farið með á Akranes, Eyjar, Akureyri, Gothia Cup í Svíþjóð og núna í meistaraflokki. Þetta er sennilega skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið að mér og ég elska þetta gigg," segir Jón Páll.
Að lokum sagði hann: „Við erum með þrjú markmið: Eitt er búið að nást og það var að fá stórlið í bikar. Fram er náttúrulega stórlið í íslenskum íþróttum. Markmið tvö er að fara á Laugardalsvöll og við eigum tvo möguleika, annars vegar í þessari keppni og svo í Fótbolti.net bikarnum. Svo er ég eins og allir aðrir mikill keppnismaður og auðvitað ætlum við að reyna að fara upp um deild. Við erum með þrusulið."
Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir