þri 26. maí 2015 17:00
Arnar Daði Arnarsson
2. deildin
Bestur í 2. deild: Þarf að passa mig
Jóhann Arnar er leikmaður 3. umferðarinnar í 2. deild
Jóhann Arnar er leikmaður 3. umferðarinnar í 2. deild
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég er alltaf sáttur þegar ég geri eitthvað gagn," segir Jóhann Arnar Sigurþórsson, leikmaður ÍR sem skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 4-0 sigri liðsins á Ægi í 3. umferð 2. deildarinnar.

Hann er leikmaður umferðarinnar hjá Fótbolta.net.

Reynum að spila skemmtilegan fótbolta
„Þetta var mjög fínt. Við erum að byrja þetta mót ágætlega. Þjálfarnir lögðu leikinn vel upp," segir Jóhann Arnar sem sagði uppleggið fyrir leikinn hafa verið að vera skipulagðir og það hafi gengið vel eftir. ÍR-ingar hafa ekki enn fengið mark á sig í fyrstu þremur umferðunum.

„Við höfum náð að loka á andstæðingana í öllum leikjunum, án þess að það bitni á fótboltanum okkar. Við reynum að spila skemmtilegan fótbolta. Byrjunin gæti varla verið mikið betri."

Jóhann Arnar hefur farið vel af stað í sumar en mörkin hans í leiknum, voru hans fyrstu mörk í sumar.

„Ég er þokkalega sáttur með mína byrjun. Þetta var minn besti leikur í sumar, alveg klárlega."

Leggja extra mikið á sig
Jóhann segir að ÍR-ingar ætli að berjast um að komast upp um deild. Hann segir erfitt að dæma um það núna, hvaða lið verði í baráttunni um að fara upp.

„Við erum með frábært lið og stóran hóp. Ef menn eru ekki að standa sig, þá eru þeir teknir úr hóp. Það vita það allir. Það leggja allir extra mikið á sig."

„Það eru nokkur sterk lið í deildinni og þetta verður jafnt. Það er ómögulegt að segja til um þetta núna."

Jóhann hefur verið duglegur að safna spjöldum í sumar og fer í bann á næstunni, með þessu áframhaldi.

„Ég er einu spjaldi frá banni. Ég þarf að passa mig á því, ég er ekki svona grófur eins og spjöldin gefa til kynna," segir Jóhann. ÍR-ingar mæta Hetti í næstu umferð.

„Þjálfarnir vita pottþétt eittthvað um þá. Þeir eru mjög góðir í að fá upplýsingar um þessi lið. Við verðum því vel undirbúnir fyrir þann leik. Þeir hafa líka byrjað sumarið ágætlega, þannig þetta verður hörkuleikur," segir Jóhann Arnar Sigurþórsson, leikmaður 3. umferðar í 2. deild karla.

Sjá einnig:
Bestur í 2. umferð - Birkir Pálsson (Huginn)
Bestur í 1. umferð - Davíð Guðlaugsson (Njarðvík)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner