þri 26. maí 2015 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Bronzetti: Rafa fer til Real - Ancelotti ætlar í árs pásu
Mynd: Getty Images
Ernesto Bronzetti fundaði með Adriano Galliani, framkvæmdastjóra AC Milan, og Carlo Ancelotti í Madríd í gær og tjáði sig við fjölmiðla eftir fundinn.

Bronzetti er umboðsmaður sem hefur starfað náið með Milan í gegnum árin og er oft fenginn í ráðgjafastörf innan félagsins.

„Eins og staðan er í dag vill Ancelotti taka sér árspásu frá knattspyrnuheiminum," sagði Bronzetti.

„Ef þú vinnur ekki einn stóran titil á ári hjá Real þá ertu líklega rekinn. Leikmennirnir sýndu að þeir kunnu að meta hann sem þjálfara og margir grétu þegar hann tilkynnti brottför sína.

„Fjölmiðlarnir, sem ráða miklu í spænska knattspyrnuheiminum, stóðu einnig með Ancelotti í þessu máli."


Bronzetti tjáði sig þá einnig um Rafa Benitez, þjálfara Napoli, sem er talinn vera líklegasti arftaki Ancelotti hjá Real.

„Já, það eru 99 prósent líkur á því að hann taki við félaginu."

Bronzetti hefur gegnt ýmsum störfum í knattspyrnuheiminum gegnum tíðina og er gríðarlega vel tengdur umboðsmaður sem hefur tekið þátt í helstu félagsskiptum á Ítalíu í nokkra áratugi.

Bronzetti hefur oft verið titlaður yfirframkvæmdastjóri hjá Milan og hefur gefið út bók. Þá hefur hann einnig gengt ráðgjafastörfum hjá Real Madrid, Lazio og Valencia. Þá var hann viðriðinn Calciopoli skandalinn fræga á Ítalíu í gegnum C-deildarfélagið Foggia.
Athugasemdir
banner
banner
banner