banner
   þri 26. maí 2015 12:30
Arnar Daði Arnarsson
Pepsi-deildin
Óli Kalli: KR eru bestir
Ólafur Karl fagnar hér sigurmarki gegn FH í fyrra.
Ólafur Karl fagnar hér sigurmarki gegn FH í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Það verður risaleikur á dagskrá í Pepsi-deild karla í kvöld þegar Stjarnan og FH mætast í 5. umferð Pepsi-deildarinnar. Leikurinn fer fram á Samsung-vellinum í Garðabæ og hefst klukkan 20:00.

Ólafur Karl Finsen, var stjarna Stjörnunnar í fyrra þegar hann tryggði þeim Íslandsmeistaratitlinn í dramatískum úrslitaleik gegn FH í lokaumferðinni í fyrra.

Langar alltaf að vinna leiki
Stjarnan fór taplaust í gegnum sumarið í fyrra og eru enn taplausir eftir fjórar umferðir. Stjarnan hefur gert tvö jafntefli í síðustu tveimur leikjum og þeim hlýtur að þyrsta í sigur í kvöld.

„Okkur langar alltaf að vinna leiki. Það er bara þannig," sagði Ólafur sem segir að Stjörnuliðið sé búið að fara yfir síðustu tvo leiki.

„Leiknisleikurinn var erfiður. Þeir spiluðu með sex manna vörn og gerðu það vel. Það voru sanngjörn úrslit. Mér fannst þeir virkilega erfiðir og þeir eru með frábært stuðningslið. Ég vona að Leiknir séu komnir til að vera í efstu deild um ókomin ár."

„Svo fannst mér vera svolítill þreytubragur á Víkingsleiknum. Mér fannst við vera þreyttir og þegar við vorum með boltann þá var engin hreyfing. Það er svosem eðlilegt, það voru tveir erfiðir leikir á undan og stutt á milli leikja. Víkingarnir eru með mjög gott lið og það var fínt að fá stig úr þeim leik, sérstaklega miðað við hvernig leikurinn byrjaði," sagði Ólafur sem svaf vel og lengi í nótt og því verður engin þreyta afsökun í kvöld.

„Við erum búnir að sofa nóg núna, það er gríðarlega mikilvægt að vera búnir að sofa vel. Það verður engin þreyta í kvöld."

Hefur ekki skoðað töfluna
En eru þetta tvö bestu lið landsins sem eru að mætast í kvöld?

„Bæði lið eru með góð lið en ég hef ekki skoðað töfluna, eða jú, KR eru bestir, þeir eru efstir. En mótið er bara nýfarið af stað."

Mikil umræða hefur verið í kringum FH-liðið síðustu daga en leikmenn liðsins neituðu viðtölum eftir 4-0 sigur á ÍA í síðustu umferð.

„Ég veit ekkert um hvað málið snerist. Fjölmiðlarnir fjalla mikið um hvern einasta leik og gefa þessu mikinn lit. Það er því eðlilegt að þeir fái svo misleiðandi upplýsingar sem þeir vinna úr. Það er því eðlilegt að það séu ekki alltaf allir sáttir."

„Ég þekki ekki Bjarna Þór neitt, en ég trúi engu slæmu frá honum. Ég man þegar hann kom einu sinni á Laugarvatn, varst þú ekki þar? - Hann var illa flottur þar og hjálpaði strákunum sem voru þar. Sú mynd af honum situr eftir hjá mér. Ég stend með Bjarna í þessu." sagði Ólafur sem segir að það geti allt gerst í leiknum í kvöld.

„Þetta verður spennandi leikur. Það getur allt gerst. Við eigum eftir að setja hápressu á þá. Við erum að spá í því að setja Daníel Laxdal framarlega á miðjuna og við ætlum síðan að setja gríðarlega hápressu á þá," sagði Ólafur en svo getur hver sem er, ákveðið hversu mikið hægt er að fara eftir því sem hann segir í þessu. Enda óeðlilegt að leikmaður liðsins gefi upp leikstíl liðsins fyrirfram í fjölmiðlum. Eða hvað? Ólafur Karl er óútreiknanlegur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner