Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   fös 26. júní 2015 08:10
Elvar Geir Magnússon
Davíð Atla: Spilað meira en ég gerði mér vonir um
„Það er miklu skemmtilegra að vinna.
„Það er miklu skemmtilegra að vinna."
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þessi leikur leggst gríðarlega vel í mig, sólin ætlar að láta sjá sig og svona," segir Davíð Örn Atlason, leikmaður Víkinga. Tíunda umferð Pepsi-deildarinnar hefst í kvöld með leik Fylkis og Víkings í Lautinni klukkan 19:15.

„Þetta er svokallaður sex stiga leikur, við getum komist upp fyrir þá með sigri og vonandi slitið okkur aðeins frá neðstu liðum."

Davíð segir að til að ná sigri þurfi Víkingar að ná fram jafn góðum varnarleik og í síðasta leik gegn Fjölni sem vannst 2-0.

„Við héldum markinu okkar hreinu í fyrsta skipti í deildinni í sumar og stefnum á að gera það aftur í kvöld. Baráttan í síðasta leik var til fyrirmyndar og við þurfum að mæta brjálaðir til leiks í Árbænum. Þeir eru hættulegir fram á við og í föstum leikatriðum og við þurfum að vera tilbúnir."

Gengi Víkinga hefur verið langt frá væntingum en eftir að hafa náð Evrópusæti í fyrra er liðið nú í áttunda sæti.

„Þrátt fyrir að gengi liðsins hafi verið slæmt síðasta mánuðinn eða svo, þá höfum við náð ágætis spilköflum í flestum leikjum okkar. Það er alltaf leiðinlegt að tapa leikjum og hvað þá fjórum í röð en við erum miklir félagar og stemningin í klefanum hefur verið fín. Það er samt miklu skemmtilegra að vinna og það var mjög gott að ná sigrinum á móti Fjölni. Arnþór (Ingi Kristinsson) mætti með gítar í klefann daginn eftir og tók nokkur vel valin lög," segir Davíð.

Davíð hefur leikið vel í sumar og var á lista Fótbolta.net yfir nýjar stjörnur í Pepsi-deildinni. Hann viðurkennir að hafa leikið stærra hlutverk á tímabilinu en hann hafi búist við.

„Ég vissi það að það yrði erfitt að komast í liðið í sumar en ég æfði vel í vetur og hélst loksins heill. Þegar það voru nokkrar vikur í mót þá leit allt út fyrir að ég myndi byrja mótið á bekknum þannig að ég hef vissulega spilað mun meira en ég gerði mér vonir um. Ég hef líka spilað svolítið á kantinum sem kom mér á óvart enda spilaði ég einungis í bakverði á undirbúningstímabilinu," segir Davíð að lokum.

Leikur Fylkis og Víkings í Pepsi-deildinni hefst klukkan 19:15 í kvöld og verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner