banner
   sun 26. júní 2016 16:46
Magnús Már Einarsson
Rooney: Jafn erfitt gegn Íslandi og Portúgal
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Wayne Rooney, fyrirliði Englendinga, segir ekki betra að mæta Íslendingum en Portúgölum í 16-liða úrslitum á EM.

Sigurmark Íslands gegn Austurríki varð til þess að England mætir Íslandi á morgun en ekki Portúgal eins og útlit var fyrir um tíma.

„Fyrir mér er þetta ekkert öðruvísi. Við þurfum að fara út á völl vinna, hvort sem það er Ísland eða Portúgal. Þetta verður erfiður leikur en öðruvísi. Þetta verður jafn erfiður leikur, eins og ef við hefðum mætt Portúgal," sagði Rooney á fréttamannafundi í dag.

„Við förum ekki í þennan leik með vanvirðingu gegn Íslandi. Við virðum Ísland og leikstíl þeirra. Það verður erfitt fyrir okkur að brjóta þá á bak aftur. Það verður erfitt að skora mörk en okkar leið er að finna leið til þess og vinna leikinn."

Englendingar gerðu markalaust jafntefli gegn Slóvakíu í lokaleik riðilsins, þrátt fyrir að hafa stjórnað leiknum. Rooney var spurður hvort að hann hafi áhyggjur af því hversu fá mörk enska liðið hefur skorað á mótinu miðað við hvað liðið hefur stýrt leikjum sínum.

„Svona er fótboltinn og þetta gerist. Við getum líka verið jákvæðir með að við höfum stýrt leikjunum sem við höfum spilað. Ef við höldum áfram að skapa færi þá munum við skora mörk. Ég er viss um að við munum skora mörk á morgun ef við sköpum færi," sagði Rooney.
Athugasemdir
banner
banner
banner