banner
   sun 26. júní 2016 18:03
Magnús Már Einarsson
Willum tekur við KR (Staðfest)
Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Willum Þór Þórsson hefur verið ráðinn þjálfari KR en Vísir greinir frá þessu í kvöld. Samningurinn gildir út tímabilið.

Willum tekur við af Bjarna Guðjónssyni sem komst að samkomulagi um starfslok hjá KR eftir dapurt gengi liðsins í sumar. KR er í 9. sæti í Pepsi-deildinni með níu stig.

Óhætt er að segja að Willum eigi góðar minningar sem þjálfari KR því hann stýrði liðinu 2002 til 2004 og þá varð liðið Íslandsmeistari tvö ár í röð. Willum er uppalinn KR-ingur og er öllum hnútum kunnugur í Vesturbænum.

Willum stýrði sinni fyrstu æfingu hjá KR í kvöld en Arnar Gunnlaugsson verður aðstoðarþjálfari með honum.

Fyrsti leikur Willums verður gegn Glenavon í Evrópudeildinni á KR-velli á fimmtudag. Fyrsti deildarleikurinn undir hans stjórn er síðan þegar KR mætir Víkingi Ólafsvík sunnudaginn 10. júlí.

Síðast þjálfaði Willum lið Leiknis R. árið 2012 en árið áður var hann með Keflavík í Pepsi-deildinni.

Willum var einnig aðstoðarþjálfari hjá Breiðabliki hluta af sumrinu 2014 en hann hefur verið alþingismaður síðan árið 2013.

Samningur KR og Willum er út tímabilið en Arnar Gunnlaugsson verður hans aðstoðarmaður.
Athugasemdir
banner
banner
banner