mán 26. júní 2017 12:41
Elvar Geir Magnússon
Elfar Árni átti að fá víti - „Vona að ástæðan sé ekki sú að dómarinn þorði ekki"
Elfar skoraði tvö mörk í leiknum en hefði átt að fá vítaspyrnu sem hefði líklega fært honum þrennuna.
Elfar skoraði tvö mörk í leiknum en hefði átt að fá vítaspyrnu sem hefði líklega fært honum þrennuna.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Þetta átti að vera víti," segir Elfar Árni Aðalsteinsson, leikmaður KA, um atvik í uppbótartíma í leik KA og KR á laugardaginn. Leikurinn endaði 2-3 fyrir KR en Akureyrarliðið hefði fengið dauðafæri til að jafna ef Erlendur Eiríksson dómari hefði bent á punktinn.

Í sjónvarpsupptöku sést Gunnar Þór Gunnarsson, leikmaður KR, brjóta á Elfari. Ekkert er dæmt þó aðstoðardómarinn Gylfi Már Sigurðsson sé í kjörstöðu til að sjá atvikið.

„Ég er á undan í boltann, pikka boltanum frá og þá tekur hann mig bara niður. Í mínum bókum er það bara vítaspyrna."

Hjörvar Hafliðason sparkspekingur segir á Twitter að um 100% víti hafi verið að ræða en telur að Erlendur hafi ekki þorað að dæma aðra vítaspyrnu á KR í leiknum.

„Ég ætla nú að vona að skýringin sé ekki sú að hann hafi ekki þorað. Maður veit samt ekki, þetta fer kannski í hausinn á mönnum," segir Elfar.

Stórar ákvarðanir í dómgæslunni hafa verið að falla gegn KA í síðustu leikjum. Til að mynda þegar löglegt mark var dæmt af þeim í markalausum leik gegn ÍA.

„Stóru hlutirnir í dómgæslunni virðast ekki falla með okkur. Vonandi snýst þetta bara við fljótlega. Þetta er pirrandi en það þýðir ekki annað en að halda áfram."

Umræða hefur verið um að hækka laun dómara en Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, blandaði sér í þá umræðu á Twitter.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner