Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mán 26. júní 2017 16:10
Elvar Geir Magnússon
Halldór Páll: Tilfinningin sú að boltinn hafi ekki verið allur inni
Halldór Páll Geirsson.
Halldór Páll Geirsson.
Mynd: Raggi Óla
„Mín tilfinning er sú að boltinn hafi ekki verið allur inni, án þess að ég geti verið 100% viss um það," segir Halldór Páll Geirsson, markvörður ÍBV, um sigurmark FH í gær.

Sjá einnig:
Sjáðu markið: Átti mark FH að standa?

Steven Lennon skoraði eina markið í Vestmannaeyjum þar sem Íslandsmeistararnir unnu 1-0 útisigur. Markið skoraði hann með skoti sem fór í slána og niður.

Oddur Helgi Guðmundsson, aðstoðardómari, var í bestu stöðunni til að sjá atvikið og hann dæmdi að boltinn hefði farið inn. Það er ómögulegt að greina þetta á sjónvarpsupptöku.

„Ég er einmitt búinn að horfa á þetta nokkrum sinnum í sjónvarpinu, það er ómögulegt að dæma um þetta. Mín tilfinning er að boltinn hafi ekki farið inn en ég get ekki verið viss. Vonandi var aðstoðardómarinn á góðum stað til að sjá þetta," segir Halldór.

„Maður hefur heyrt það að flestir haldi að boltinn hafi ekki verið inni. Það var allavega ömurlegt að fá ekkert úr leiknum, það vantar upp á að við náum að skora mörk. Miðað við spilamennskuna áttum við að skora eitt til tvö mörk í fyrri hálfleiknum."

Hér að neðan má sjá nýja mynd sem við fengum senda af umræddu atviki. Miðað við þessa mynd er boltinn að minnsta kosti mun nær því að vera inni en margir halda. Ýmsir telja hana sýna að aðstoðardómarinn hafi dæmt rétt.

Eins og staðan er þá er ÍBV tveimur stigum frá fallsæti.

„Við eigum næst bikarleik gegn Víkingi og svo verðum við að vinna Breiðablik í næsta deildarleik," segir Halldór.
Athugasemdir
banner
banner