Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   fös 26. júlí 2013 13:00
Tómas Meyer
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Evrópuævintýrin
Tómas Meyer
Tómas Meyer
Blikar komu flestum á óvart.
Blikar komu flestum á óvart.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stemningin á FH - Ekranas.
Stemningin á FH - Ekranas.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Það eru ný ævintýri í gangi sem heita því skemmtilega nafni Evrópuævintýrin, eða EÆ eins og þetta mundi heita á bírókratísku en við skulum bara halda okkur við fótboltann.

Á hverju ári eru lið frá Íslandi í pottinum þegar dregið er í forkeppni Evrópumótanna og eins og undanfarin ár þá vonast forráðamenn þeirra liða eftir því að fá hentuga andstæðinga í byrjun. Andstæðingar sem eru ekkert svo allt of langt frá okkur og af þeim styrkleika að það séu aðeins meira en helmingslíkur að komast áfram í næstu umferð.

Öll liðin fjögur sem voru núna í pottinum náðu því markmiði sínu að komast á næsta stig og er það mjög vel gert en alls ekki sjálfsgefið.

Þegar var komið í næstu umferðina hjá þeim liðum sem eru í Evrópudeildinni þá vitanlega vissu menn að líkurnar væru minni en í umferðinni á undan. En það er þannig með boltann að maður veit aldrei hvernig þetta spilast og ef útsjónarsemin, kænskan og kannski heppnin (ef hún er þá til í fótbolta) er til staðar er allt hægt.

KR og ÍBV luku keppni með sæmd og geta litið stolt til baka, fengu sterka andstæðinga og gáfu þeim verðuga keppni.

Silfurliðið frá því í fyrra, Breiðablik, tók þetta alla leið. Fáir bjuggust við því að þeir næðu að slá Sturm Graz út. Eftir markalaust jafntefli á Kópavogsvelli í fyrri leiknum var að sjálfsögðu möguleiki þegar út var komið. Það var nefnilega málið fyrir leik er alltaf möguleiki.

Ég horfði á leikinn í gær og þegar um korter var búið fór ég að trúa því að þetta verkefni gæti unnist. Blikarnir voru gríðarlega vel skipulagðir og sýndu þessu austurríska liði enga vinsemd. Það var ég að fíla. Menn létu finna fyrir sér og áætlun Ólafs Helga gekk alveg eftir. Meira að segja góðvinur minn Gunnleifur Vignir átti frekar náðugan dag.

Þegar Ellert Hreinsson skoraði svo mark Blika í þessum leik stóð ég upp og fagnaði vel og innilega. Þá spurði félagi minn „Ert þú orðinn Bliki?“ með undrunartón. Nei það verð ég seint en aftur á móti þá held ég með öllu sem íslenskt heitir í Evrópukeppnum. Það er nefnilega málið, sigur Blikana er ekki bara sigur fyrir þá heldur íslenska fótboltans í heild.

Alveg eins og með FH og þeirra sigur. Liðið sló Ekranas eftirminnilega út í vikunni. Að vera í Kaplakrika í þessum leik var eins og í gamla daga, stemningin var komin aftur sem hefur vantað undanfarin ár og góð mæting. Svona vill maður hafa þetta. Nóg af fólki, flottur fótbolti og stemning sem lifir í minningunni. Undanfarin ár hafa Íslandsmeistarar farið í eina umferð og þar við situr. Nú er komið nýtt plan, næsta umferð. Ef það klikkar þá fer FH í Evrópudeilda-pottinn og kannski mætir stórlið í heimsókn í Hafnarfjörðinn.

Ég vona að þeir komist sem lengst, alveg eins með Breiðablik.

Ljóst er að þessi árangur okkar liða í Evrópu gleðja gjaldkera félagana meira en alla aðra. Það er komin bein lína til landsins frá UEFA og streyma peningar inn. Ég veit að það er ekkert létt verk að reka fótboltalið á Íslandi en þegar markmið og árangur ná saman léttir þetta heldur betur fyrir. Með þessum árangri eru þau lið sem voru fulltrúar okkar að gefa það fordæmi að allt er hægt og ekkert er ómögulegt.

Evrópuævintýrin halda áfram næstu vikur. Áfram íslenskur fótbolti hvar sem er!
Athugasemdir
banner
banner