Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 26. júlí 2016 14:30
Elvar Geir Magnússon
Guðmundur Steinn: Vona að ég hjálpi að bæta sóknarleikinn
Guðmundur Steinn í búningi ÍBV.
Guðmundur Steinn í búningi ÍBV.
Mynd: ÍBV
Framherjinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson er kominn með leikheimild hjá ÍBV og verður því löglegur þegar Eyjamenn fá Íslandsmeistara FH í heimsókn í undanúrslitum bikarsins. Leikurinn verður á Hásteinsvelli á fimmtudagskvöld.

Þessi 27 ára leikmaður hefur leikið með Val, HK, Víking Ó. og Fram hér á landi en fór til Notodden í norsku C-deildinni snemma á síðasta ári. Hann segir að tíminn í Noregi hafi verið upp og ofan en nárameiðsli settu strik í reikninginn á fyrra tímabilinu.

Það var snarpur aðdragandi að því að hann gekk í raðir ÍBV.

„Glugginn er opinn og þeim vantaði sóknarmann. Þeir sýndu mér áhuga og úr varð að ég kom hingað. Ég og konan eigum von á barni í næsta mánuði svo það var ekki alslæmt á þessum tímapunkti að koma heim," segir Guðmundur Steinn.

„Það voru fleiri félög sem sýndu áhuga en það fór ekki mjög langt."

ÍBV hefur ekki unnið leik í Pepsi-deildinni síðan snemma í júní og sóknarleikurinn ekki verið upp á marga fiska. Guðmundur Steinn vonast til að hjálpa liðinu að bæta úr því og koma sér frá fallhættunni.

„Mér lýst rosalega vel á það að vera kominn til ÍBV. Þetta er spennandi og skemmtilegt. Það hefur verið smá bras í deildinni en allir eru á sömu blaðsíðu og menn ákveðnir í að rétta úr kútnum. Ég geri það sem ég er beðinn um að gera og allir vonast til að ég geti hjálpað eitthvað til við að bæta sóknarleikinn."

Fyrsta verkefni Guðmundar Steins með ÍBV er ekki af verri endanum, undanúrslitaleikur í bikar gegn FH á fimmtudag.

„Vonandi fær maður að taka þátt í þeim leik, það yrði rosalega skemmtilegt. Maður getur ekki fengið stærri fyrsta leik. Ég vona að ég fái að spila, ég er allavega klár ef á þarf að halda. FH-ingar eru ekkert að ljúga því þegar þeir segjast vera besta lið landsins. En við erum klárir," segir Guðmundur Steinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner