Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 26. ágúst 2016 14:00
Elvar Geir Magnússon
Luke Shaw: Gat varla gengið í sex mánuði
Luke Shaw í leik gegn Southampton.
Luke Shaw í leik gegn Southampton.
Mynd: Getty Images
Shaw kominn á börurnar í Hollandi.
Shaw kominn á börurnar í Hollandi.
Mynd: Getty Images
Bakvörðurinn Luke Shaw er í ítarlegu einkaviðtali við stjörnublaðamanninn Daniel Taylor sem birtist hjá Guardian í dag. Þar talar hann um meiðslin hrikalegu sem hann varð fyrir gegn PSV Eindhoven fyrir ári síðan.

Myndbandið af því þegar Shaw fótbrotnaði í Hollandi er ekki fyrir viðkvæma.

„Ég sat þarna og hélt um lærið á mér, ég sá fótlegginn gjörsamlega hanga á mér. Í dag vil ég hreint út ekki tala um tæklinguna. Þegar þetta gerðist ákvað ég að gefa honum vafann en því oftar sem ég hef séð myndband af þessu því verr lítur þessi tækling út," segir Shaw.

Það var Mexíkóinn Héctor Moreno sem átti umrædda tæklingu.

„Maður verður að virða það að hann kom og baðst afsökunar strax eftir þetta. Hann heimsótti mig á sjúkrahúsið og ég horfði í augun á honum í herberginu mínu. Ég sagði honum að þetta væri allt í lagi. En eftir þetta gekk ég í gegnum svo erfiðan tíma. Ég er í raun pirraður að UEFA valdi hann mann leiksins, í mínum huga var þetta slæm tækling."

„Það flaug nokkrum sinnum í gegnum huga minn hvort ég myndi spila fótbolta aftur. Ég get ekki horft á myndbandið af þessu lengur. En ég get horft á myndir af þessu. Þetta var áfall, ég táraðist því ég vissi að ég yrði lengi frá en sársaukinn kom síðar," segir Shaw.

„Um nóttina á sjúkrahúsinu var sársaukinn ólýsanlegur. Það versta sem þú getur ímyndað þér. Móðir mín var hjá mér og ég sagði við hana að ég gæti ekki farið í gegnum þennan sársauka, það þyrfti að gera eitthvað. Læknarnir sáu til þess að ég sofnaði en þegar ég vaknaði var sársaukinn enn til staðar."

Shaw segist ætla að heimsækja St Anna Ziekenhuis sjúkrahúsið í Geldrop í Hollandi einn daginn og hitta fólkið sem sá um hann.

„Ég vil þakka þeim fyrir almennilega. Ég vil gefa þeim gjöf því fóturinn á mér er svo góður núna. Þetta er frábært fólk sem gerði allt fyrir mig og fjölskyldu mína," segir Shaw sem fékk mikinn stuðning úr öllum áttum, þar á meðal frá stuðningsmönnum PSV Eindhoven.

„Ég hef heyrt aðra leikmenn tala um svarta tíma þegar þeir voru að reyna að koma til baka úr erfiðum meiðslum en ég bjóst ekki við því að þetta væri svona erfitt. Það voru tímar þar sem ég hugsaði: Ég vil ekki vera hérna lengur. Ég gat varla gengið í sex mánuði, þetta snérist ekki bara um að geta ekki spilað fótbolta. Ég haltraði svo lengi og var með hækjur."

Shaw er aftur byrjaður að spila og segir að andrúmsloftið í herbúðum Manchester United sé með besta móti.

„Ég er heill og í góðu formi, ég er ánægður og finnst að ég eigi mikið inni. Ég vil bara horfa fram á veginn núna," segir Shaw.
Athugasemdir
banner
banner