fös 26. ágúst 2016 22:59
Elvar Geir Magnússon
Nakin EM-hetja truflaði leikinn hjá Óla Kristjáns
Elstrup er algjörlega búinn að tapa sér.
Elstrup er algjörlega búinn að tapa sér.
Mynd: Twitter
Fræknasta afrek í íþróttasögu Danmerkur kom vafalítið árið 1992 þegar danska landsliðið varð Evrópumeistari í fótbolta.

Ein af hetjum danska liðsins er Lars Elstrup sem lék sem framherji. Hann hóf feril sinn með Randers en var síðar keyptur til Luton Town fyrir upphæð sem var met í sögu félagsins.

Ári eftir gullverðlaunin á EM tók Elstrup óvænta beygju í lífinu, skildi við eiginkonu sína, fjarlægðist vini og fjölskyldu og hætti í boltanum. Elstrup gekk til liðs við sértrúarsöfnuð og hvarf skyndilega af sjónarsviðinu.

Elstrup er nú 53 ára en sorgleg uppákoma varð þegar Ólafur Kristjánsson og lærisveinar hans í Randers unnu Silkeborg í kvöld. Elstrup hljóp þá nakinn inn á völlinn og lét öllum illum látum áður en hann var fjarlægður af öryggisvörðum.

Þessi uppákoma hefur fangað flestar fyrirsagnir danskra fjölmiðla.

„Þetta er ákaflega sorglegt mál. Hann er ein helsta fótboltahetja bæjarins," segir Michael Gravgaard, framkvæmdastjóri Randers, við danska fjölmiðla en hér að neðan má sjá þegar Elstrup skoraði í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum á EM 92.


Athugasemdir
banner
banner
banner