fös 26. ágúst 2016 20:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Heimild: Sky Sports 
Shane Duffy til Brighton - Duglegur að skora sjálfsmörk
Duffy hefur verið duglegur að setja sjálfsmörk í upphafi tímabils
Duffy hefur verið duglegur að setja sjálfsmörk í upphafi tímabils
Mynd: Getty Images
Enska Championship-deildarliðið Brighton & Hove Albion hefur nælt í varnarmanninn Shane Duffy frá Blackburn Rovers.

Hinn 24 ára gamli Duffy skrifaði undir fjögurra ára samning við Brighton, en kaupverðið er ekki gefið upp.

Duffy hefur vakið ákveðna athygli í upphafi tímabils fyrir það að skora sjálfsmörk. Hann gerði meðal annars tvö þegar Blackburn tapaði fyrir Aron Einari Gunnarssyni og félögum í Cardiff í síðustu viku. Duffy fékk einnig rautt spjald í leiknum gegn Cardiff.

Þetta var ekki nóg vegna þess að helgina áður skoraði hann einnig sjálfsmark í 3-0 tapi gegn Wigan. Þarna voru því komin þrjú sjálfsmörk í einum og hálfum leik.

Duffy náði þó að bæta eitthvað fyrir þetta með sigurmarki gegn Crewe í deildabikarnum á þriðjudaginn síðasta. Það þurfti að framlengja leikinn og þar skoraði Duffy sigurmarkið á 97. mínútu.

„Hann er mjög góður varnarmaður og með mikla reynslu miðað við aldur. Hann hefur spilað í ensku úrvalsdeildinni, Championship-deildinni, Evrópudeildinni og svo landsleiki fyrir Írland. Hann er góð viðbót fyrir okkur," Chris Hughton, stjóri Brighton, eftir að kaupin gengu í gegn.
Athugasemdir
banner
banner
banner