mið 26. nóvember 2014 12:00
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Þórarinn Ingi: Maður verður kallaður öllum illum nöfnum
Þórarinn Ingi í leik með ÍBV í sumar.
Þórarinn Ingi í leik með ÍBV í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
,,Ég er virkilega ánægður. Ég sagði við stjórn ÍBV að ég vildi fara í lið sem er að fara að berjast um titilinn á næsta ári og ef það er einhver klúbbur sem er pottþétt að fara að gera það þá er það FH," sagði Þórarinn Ingi Valdimarsson við Fótbolta.net í dag.

FH keypti í gær Þórarinn Inga frá ÍBV eftir samningaviðræður að undanförnu. ,,Ég vil þakka stjórninni fyrir skilning og gott samstarf. Ég á eftir að sakna Hanna harða," sagði Þórarinn.

Hinn 24 ára gamli Þórarinn Ingi var einnig orðaður við Stjörnuna og KR en hann fór hins vegar einungis í viðræður við FH.

,,FH sýndi mér mestan áhuga og heillaði mig mikið. Ég fór í viðræður við FH eftir að tilboðið var samþykkt og þetta gerðist frekar hratt. Ég er virkilega ánægður með útkomuna."

,,Það þurfti ekki mikið til að selja mér þá hugmynd að fara í FH þegar þetta fór af stað. Ég veit hvað markmiðið er hjá þeim og hvað þeir vilja sem klúbbur. Það á að styrkja leikmannahópinn og gera gott mót á næsta ári."


Atvinnumennskan erlendis bíður
Þórarinn var í eitt og hálft ár á láni hjá Sarpsborg í Noregi áður en hann kom aftur til ÍBV í sumar. Þórarinn Ingi hafði áhuga á að fara aftur í atvinnumennsku en sá draumur mun nú bíða.

,,Það var einhver áhugi úti en það var ekkert sem að var virkilega spennandi. Þess vegna ákvað ég að taka frekar slaginn heima með FH."

,,Það er nægur tími til að komast út síðar. Það er alltaf markmiðið en það verður að vera spennandi til að maður hoppi á það. Ég lærði mikið úti í Noregi og maður vill fara aftur í atvinnumennsku en þetta snýst um gera þetta í réttum skrefum."


„Þarf stundum að hugsa um sjálfan sig"
Þórarinn Ingi segir erfitt að yfirgefa uppeldisfélag sitt ÍBV. ,,Það er virkilega erfitt að skilja við klúbbinn þegar það er uppbygging að fara í gang. Maður þarf stundum að hugsa um sjálfan sig."

,,Ég tók þátt í uppbyggingu með ÍBV á sínum tíma og náði að skila klúbbnum í Evrópusæti. Ég vona að það komi nýir leikmenn núna sem geta gert það sama,"
sagði Þórarinn sem býst við að fá að heyra það þegar FH mætir á Hásteinsvöll næsta sumar."

,,Það verður púað á mann og maður verður kallaður öllum illum nöfnum sem er bara jákvætt. Eyjamenn eru stundum svoleiðis í hita leiksins. Það verða einhver læti en það verður bara gaman. Maður hefur upplifað að aðrir leikmenn fái skít og maður býst við því. Eftir leik getur fólk síðan brosað framan í mann og heilsað manni."

Þórarinn Ingi mun næsta sumar halda áfram að spila í hvítum búning. ,,Það er langbest. Það sést svo vel hvað maður er tanaður í hvíta búningnum," sagði Þórarinn léttur í bragði að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner