banner
   fös 27. febrúar 2015 10:00
Magnús Már Einarsson
Hver er munurinn á málum Ched Evans og Luke McCormick?
Svar við fyrirspurn í sérfræðingahorni Fótbolta.net
Ched Evans.
Ched Evans.
Mynd: Getty Images
Luke McCormick.
Luke McCormick.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net hefur opnað sérfræðingahorn á síðunni þar sem lesendur geta sent inn fyrirspurnir um allt sem tengist fótbolta á einhvern hátt.

Finnbogi Vikar kom með spurningu um Luke McCormick og Ched Evans. Tanja Tómasdóttir lögfræðingur og umboðsmaður svaraði spurningunni en svar hennar má sjá hér að neðan.

Af hverju fær markvörðurinn Luke McCormick samning aftur hjá sínu gamla félagi í D-deildinni, Plymouth A., eftir að vísu eyðimerkurgöngu með Turo City og víðar betrunarvistun í fangelsi. En hann varð valdur að dauða tveggja barna að mig minnir í slysi þar sem hann var sakfelldur vegna ölvunnar við akstur. En Ched Ewans kemst hvergi að þrátt fyrir að hafa tekið út sína refsingu í fangelsi vegna nauðgunnar, jafnvel þótt hinn forríki tengdapabbi býðst til að greiða launin hans hjá þeim klúbbi sem taka við honum á samning? Hver er munurinn á þessum tveimur fótboltamönnum og þeirra málum? Ætti Ched Ewan að fá möguleika á því að spila í Pepsideildinni eða einhver annar leikmaður sem sakfelldur hefur verið vegna nauðgunnar?
Ef litið er til þeirra reglna sem gilda í knattspyrnu þá er í sjálfu sér enginn munur á þessum tveimur leikmönnum og þeirra málum. Báðum leikmönnum er heimilt að gera samning við félag án þess að knattspyrnureglur komi í veg fyrir það. Ched Evans spilaði með Sheffield United á þeim tíma sem hann gerðist sekur um nauðgun. Þegar hann lauk afplánun stóð til að hann myndi gera samning við Sheffield United. Stuðningsmenn félagsins mótmæltu harðlega og var m.a. undirskriftum safnað til að hvetja félagið til að semja ekki við hann. Þar að auki höfðu styrktaraðilar hótað því að rifta samningum sínum við félagið. Það varð til þess að Sheffield Utd hætti við að gera samning við hann. Fleiri lið höfðu hug á að gera samning vð hann en hættu við eftir að stuðningsmenn og aðrir mótmæltu. Tengdafaðir Evans ætlaði meira að segja að borga Oldham fyrir að gera samning við hann, þ.e. hann ætlaði að borga þær upphæðir sem myndu tapast ef styrktaraðilar félagsins myndu draga stuðning sinn til baka. Þar að auki ætlaði hann að greiða laun Evans út tímabilið sem nú er í gangi. Leikmannasamtök Englands höfðu einnig lýst yfir stuðningi sínum við Oldham og lofað fjárhagslegum styrkjum ef félagið myndi gera samning við Evans enda töldu samtökin hann eiga rétt á öðru tækifæri eftir að hafa tekið út sína refsingu. Þrátt fyrir þetta vildi Oldham ekki gera samning við leikmanninn en starfsmönnum félagsins hafði verið hótað og undirskriftum hafði jafnframt verið safnað.

Málum var hins vegar öðruvísi háttað í tilviki Luke McCormick sem gerði samning við sitt gamla félag Plymouth Argyle. Ekki nóg með það heldur var hann einnig gerður að fyrirliða liðsins þrátt fyrir mótmæli stuðningsmanna. Þannig að munurinn á þessum tveimur knattspyrnumönnum og þeirra málum er í rauninni bara sá að í tilviki Luke McCormick var félag sem að var tilbúið að gera samning við hann þó hann hafi hlotið dóm fyrir alvarlegt brot. Það eru fleiri dæmi um leikmenn sem hafa snúið aftur í atvinnumennsku eftir að hafa brotið af sér en svo virðist sem eðli brotanna hafi mikið að segja um afstöðu stuðningsmanna og annarra í knattspyrnuheiminum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner