Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 27. mars 2017 15:30
Elvar Geir Magnússon
Dublin, Írlandi
Heimir um gagnrýnina á landsliðið: Kröfurnar ofboðslega miklar
Icelandair
Heimir á fréttamannafundinum í morgun.
Heimir á fréttamannafundinum í morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðið fyrir leikinn gegn Kosóvó.
Landsliðið fyrir leikinn gegn Kosóvó.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron býr sig undir innkast.
Aron býr sig undir innkast.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þrátt fyrir að Ísland sé í flottum málum í riðli sínum í undankeppni HM hefur þó verið talsverð gagnrýni á spilamennsku liðsins, sérstaklega eftir leikinn gegn Kosóvó. Fótbolti.net spurði Heimi Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson út í málið á fréttamannafundi í Dublin í dag.

Aron segir að leikmenn finni fyrir þessum auknu kröfum frá almenningi og fjölmiðlum, til að mynda hafi margir viljað sjá liðið vinna Kosóvó með stæl.

„Já auðvitað finnum við fyrir auknum kröfum, það er bara hluti af þessu. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að fólk vildi sjá okkur valta yfir Kosóvó en það var ekkert að fara að gerast. Við vissum það sjálfir og undirbjuggum okkur fyrir erfiðan leik," segir Aron.

„Þessar tölur á töflunni sýna að við erum að ná í úrslitin þó við séum ekki að spila jafn flottan fótbolta og við höfum kannski gert. Við erum ekkert að spá í því eins og er, við erum að ná í úrslit og erum að gera það vel. Svo er bara undir okkur komið að halda áfram að bæta okkur sem lið. Við eigum mikið inni og það á eftir að skína í gegn."

Erfitt en við höfum staðist það
Heimir var spurður að því hvort staða leikmannahópsins fyrir leikinn gegn Kosóvó hafi ekki verið sú erfiðasta síðan hann kom í starfið. Lykilmenn meiddir og aðrir lykilmenn eru kaldir og ekki að spila með sínum liðum.

„Þetta er ágætis spurning eins og spurningin sem Aron fékk áðan með kröfurnar. Kröfurnar eru ofboðslega miklar og ef við tökum bara það sem Írarnir eru að spyrja okkur um, hversu frábært þetta er búið að vera hjá okkur og þeim finnst ótrúlegt hvað við höfum náð góðum árangri eftir Evrópukeppni," segir Heimir.

„Sagan segir að þegar þú ferð í lokakeppni er oft erfitt að byrja aftur upp á nýtt. Það sama á við með lið sem eru að gera það í fyrsta skipti eiga mjög erfitt með að fylgja því eftir. Við þurfum ekki annað en að sjá Hollendinga, sem eru aðeins stærri knattspyrnuþjóð en Ísland, hvernig þeirra velgengni í Heimsmeistarakeppninni fór með þá í Evrópukeppnina. Þeir eru ekki enn búnir að ná sér upp eftir það. Sagan segir okkur að þetta sé erfitt en við erum búnir að standast það."

„Við erum í riðli þar sem eru fjögur lið sem voru í lokakeppni. Mjög sterkum riðli og sennilega sterkasta riðlinum í undankeppninni. Aukinheldur höfum við á sama tíma aldrei lent í öðrum eins forföllum á leikmönnum eins og íslenska landsliðið hefur átt við núna."

Núna er mikilvægast að úrslitin séu í lagi
Nýjasta dæmið um gagnrýnina á spilamennsku Íslands er viðtal við Óskar Hrafn Þorvaldsson á Vísi þar sem hann segist hafa miklar áhyggjur þó úrslitin hafi verið góð.

„Það er allt í lagi að hafa kröfur en það vantar líka að sjá að stundum þarf maður bara að fá úrslit og það er ekki hægt að gera allt í einu. Í allri þessari gleði sem var í Evrópukeppninni þá gleymum við því líka að það var alltaf verið að gagnrýna okkur fyrir hvernig við spilum fótbolta. Það gleymist þegar það er horft til baka og við sjáum þetta allt í samhengi. Ég vona að það verði þannig líka með þessa keppni núna," segir Heimir.

„Það er ekki hægt að gera allt í einu og þá verður að forgangsraða. Núna er mikilvægast í þessari stöðu að hafa úrslitin í lagi og þau hafa fallið með okkur. Eini tapleikurinn okkar er útileikurinn á móti Króatíu. Það hafa því miður ekki mörg lið farið þaðan með þrjú stig eða sigur."

„Ég held að þegar við horfum til baka og skoðum samhengið þá er hálft mótið búið og við höfum aldrei getað stillt upp sama liði. Við gátum alltaf stillt upp sama liði fjögur ár í röð og ég held að við séum líka að hagnast á því að við höfum notað vináttuleikina í að leyfa mönnum að fá tækifæri. Þeir hafa því þurfti minni tíma til að koma í liðið. Við höfum virkilega þurft á stórum hóp að halda í þessum fimm leikjum. Það er margt jákvætt, margar góðar ákvarðanir sem við höfum tekið á leiðinni."

Heimir neitar því þó ekki að spilamennskan gæti verið betri.

„Vissulega erum við fyrstir til að segja að við höfum oft spilað betur en við höfum náð í úrslit og það er það sem skiptir máli ef við ætlum að komast í lokakeppni. Þau hafa fallið með okkur, kannski heppnir á einhverjum sviðum en þú verður líka að skapa þína eigin heppni með réttum stíl."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner