mán 27. mars 2017 13:30
Elvar Geir Magnússon
Dublin, Írlandi
Hrósa Íslendingum fyrir það hvernig þeir hafa tekist á við „þynnkuna"
Icelandair
Aron og Heimir á fréttamannafundi í Dublin í dag.
Aron og Heimir á fréttamannafundi í Dublin í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir á landsliðsæfingu í Parma.
Heimir á landsliðsæfingu í Parma.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron í góðum félagsskap.
Aron í góðum félagsskap.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Írskir fjölmiðlamenn hrósa íslenska landsliðinu fyrir úrslitin sem það hefur náð í undankeppni HM. Eitt helsta umræðuefnið á fréttamannafundi Íslands í Dublin var að velgengni Íslands hefði ekkert dalað eftir árangurinn á Evrópumótinu ógleymanlega.

Heimir Hallgrímsson og Aron Einar Gunnarsson sátu fyrir svörum og var fyrsta spurningin frá írskum blaðamanni þessu tengt.

„Það er alltaf erfitt að koma eftir fyrstu úrslitakeppnina og reyna að gera það sama aftur. En við erum enn þá hungraðir í að ná meiri árangri og við erum enn að ná í úrslitin og erum með 10 stig úr 5 leikjum sem er góð byrjun. En þetta voru frábær úrslit gegn Kosóvó sem við erum ánægðir með þó leikurinn hafi ekki verið sá besti hjá sumum leikmönnum," sagði Aron.

Heimir tók svo boltann á lofti:

„Það er smá þynnka eftir svona mót, þetta er í fyrsta sinn sem leikmennirnir eru ekki að fá sumarfrí. Þetta er allt nýtt fyrir okkur og ég held að við höfum ekki verið nógu undirbúnir undir það hvað við ættum að gera eftir mótið. Þetta er eitthvað sem við leikmennirnir, starfsfólkið og þjálfararnir erum að læra af. Þetta er nýtt sem við lærum vonandi af eftir Heimsmeistaramótið í Rússlandi," sagði Heimir.

Aldrei náð að spila á sama liðinu
Annar írskur fjölmiðlamaður nefndi þá Wales sem dæmi um lið sem ætti erfitt með að finna flugið eftir flott Evrópumót, öfugt við Ísland. Liðið hefur aðeins unnið einn af fimm leikjum sínum í undankeppninni. Hann spurði Heimi hvernig hans vinna væri varðandi það að fagna árangrinum á EM en halda mönnums samt á tánum og stefna á HM í Rússlandi?

„Bæði fyrir EM og á meðan EM stóð var uppáhalds setningin okkar sú að árangur er ekki endastöð heldur stöðugt ferðalag í rétta átt. Það að við töluðum um þetta fyrir Evrópumótið er ein af ástæðum þess að leikmennirnir voru með rétt hugarfar þegar við byrjuðum aftur. Leikmenn eins og Ronaldo og þeir þekkja þetta. Þeir fara í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og svo í úrslitaleik með landsliðinu. Þeir þekkja þetta en það er erfiðara þegar þú gerir þetta í fyrsta sinn," sagði Heimir.

„Leikmenn okkar hafa glímt við meiri meiðsli í byrjun þessarar undankeppni en nokkurn tíma áður. Ísland er það landslið sem hefur verið auðveldast að spá fyrir um byrjunarliðið hjá en við höfum samt aldrei náð að spila á sama byrjunarliðinu í þessari undankeppni. Það er mikið um meiðsli og það er að hluta til útaf Evrópumótinu og því að þeir fengu ekki frí eftir mótið. En þetta getur líka verið andlegt, ef þeir eru þreyttir andlega. Þetta er klárlega eitthvað sem við getum lært af."

Verður kærkomið að fá smá frí
Aron Einar hefur sjálfur sloppið við meiðsli en hann hefur verið besti leikmaður Cardiff City á tímabilinu.

„Þetta hefur auðvitað verið erfitt. Championship deildin er spiluð á háu tempói, en sem betur fer hef ég ekkert meiðst. Maður er samt vanur því að fá sumarfrí og hvílast og því var þetta erfitt. Ég myndi samt gera þetta allt aftur bara til að fá sumar eins og ég fékk í fyrra. Ég get því ekkert kvartað. Ég hef verið í góðu formi og spila alla leiki undir stjórn Warnock og nýt þess. Það er komið að endalokum tímabils núna og ég hlakka til að fá nokkra daga í frí eftir tímabilið áður en kemur að leiknum gegn Króatíu," sagði Aron á fréttamannafundinum

Íslenska landsliðið er í öðru sæti í sínum riðli í undankeppni HM eftir sigurinn gegn Kosóvó. Annað kvöld verður leikinn vináttulandsleikur gegn Írlandi hér í Dublin.

Fótbolti.net er með öflugt teymi í Hollandi og er hægt að fylgjast með öllu bak við tjöldin á Snapchat (Fotboltinet), á Instagram og öðrum samskiptamiðlum okkar.

Leikir Íslands á EM:
Ísland 0-1 Frakkland
Ísland 1-2 Sviss
Ísland 0-3 Austurríki
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner