Keflvíkingar eru komnir á ný í deild þeirra bestu eftir tvo ár í Inkasso-deildinni. Liðið var með feykisterkt lið í næstu efstu deild í fyrrasumar en hafa lítið sem ekkert styrkt sig á leikmannamarkaðanum í vetur.
Eftir að liðið mistókst að fara upp í Pepsi-deildina sumarið 2016 tók Guðlaugur Baldursson við liðinu og fór upp með liðið á sínu fyrsta ári.
Eftir að liðið mistókst að fara upp í Pepsi-deildina sumarið 2016 tók Guðlaugur Baldursson við liðinu og fór upp með liðið á sínu fyrsta ári.
Á ekki von á meiri liðstyrk
„Við höfum ekki tekið inn marga leikmenn í vetur. Við erum að reyna gefa ungu leikmönnunum sem bæði spiluðu í fyrra og hafa komið inn í þetta í vetur meiri og stærri ábyrgð. Við höfum ekki tekið marga leikmenn ennþá og ég á ekki von á að við gerum það úr því sem komið er," sagði Guðlaugur sem viðurkennir að hlutirnir hafi einungis þróast í þessa átt. Það hafi verið stefnan að styrkja liðið í vetur en það hafi ekki gengið eftir.
„Við gerum okkur grein fyrir því að það er mikill munur á milli deildanna og verkefnið er mjög verðugt það er alveg klárt. En eins og ég segi, hlutirnir hafa þróast í þessa átt og við vinnum með þennan hóp. Það eru margir efnilegir leikmenn í bland við leikmenn með mikla reynslu. Við erum að reyna búa til gott lið úr þeirri blöndu sem við höfum."
Þrír leikmenn hafa gengið til liðs við Keflavíkur í vetur. Tveir þeirra, uppaldnir Keflavíkingar Aron Freyr Róbertsson frá Grindavík
og Bojan Stefán Ljubicic frá Fjölni auk markvarðarins, Jonathan Faerber frá Reyni Sandgerði.
Guðlaugur býst ekki við því að Keflavík styrkir sig frekar fyrir tímabilið.
„Eins og staðan er núna finnst mér ólíklegt að við styrkjum okkur en hlutirnir eru fljótir að breytast í þessum bransa."
„Staðan á liðinu er fín. Flestir leikmenn liðsins eru heilir og aðrir að komast í gírinn sem hafa ekki verið það í vetur," sagði Guðlaugur og nefnir þá leikmenn á borð við Lasse Rise og Sigurberg Elísson sem hafa verið meiddir í allan vetur. Auk þess sleit Hörður Sveinsson krossband síðasta sumar en lengra er þó í að hann snúi aftur á knattspyrnuvöllinn.
Verða klárir í bátana
„Spilamennskan hefur verið upp og niður í vetur sem er kannski ekkert óeðlilegt. Við höfum verið að prófa marga leikmenn og leyft ungum leikmönnum að spreyta sig. Það tekur tíma. Mér finnst vera kominn ákveðinn stöðugleiki hjá okkur núna og við erum að reyna byggja þetta frá öftustu línu til þeirra fremstu. Það eru framfarir á okkar leik, við þurfum hinsvegar að gera enn betur til að vera vel færir í deild þeirra bestu."
Keflavík fer í æfingaferð til Spánar á sunnudaginn.
„Við æfum vel þar og spilum æfingaleik við KA og ÍR þar. Síðan komum við heim og ég reikna með að við tökum tvo æfingaleiki fyrir mótið."
„Við verðum klárir í bátana þegar mótið hefst, það er engin spurning," sagði Guðlaugur Baldursson þjálfari Keflavíkur að lokum.
Athugasemdir