Finnur Orri Margeirsson, fyrirliði Breiðabliks, segir að Blikar séu mjög bjartsýnir fyrir komandi tímabil í Pepsi-deildinni en liðið setur stefnuna á Íslandsmeistaratitilinn. Í dag varð liðið Lengjubikarmeistari með 3-2 sigri á Val.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 2 Valur
„Maður er ánægður með alla titla. Þetta var mjög sætt og við erum ánægðir með þetta," sagði Finnur.
„Þetta gekk mjög vel í fyrri hálfleik en það komu ekki eins góðir kaflar í seinni hálfleik. En við héldum þetta út. Við spiluðum nógu vel en hefðum getað gert betur. Við unnum leikinn og það skiptir máli."
Hann segir að mikil spenna sé fyrir komandi tímabil.
„Við erum mjög bjartsýnir og mikil tilhlökkun. Hópurinn er breiður og góður. Við fengum leikmenn í þær stöður sem vantaði og við erum mjög sáttir með hópinn í dag."
Finnur var ekki búinn að kjósa þegar Fótbolti.net ræddi við hann eftir leik í kvöld. „Það er næst á dagskrá, að fara niður í Fífu að kjósa," sagði Finnur en viðtalið má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir