Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 27. apríl 2015 12:00
Elvar Geir Magnússon
Spá Fótbolta.net - 3. sæti: Stjarnan
Ólafur Karl Finsen var einn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra.
Ólafur Karl Finsen var einn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel Laxadal var í liði ársins.
Daníel Laxadal var í liði ársins.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Pablo Punyed var mikilvægur fyrir Stjörnuna.
Pablo Punyed var mikilvægur fyrir Stjörnuna.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Michael Præst er að snúa úr meiðslum.
Michael Præst er að snúa úr meiðslum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslandsmeistararnir.
Íslandsmeistararnir.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Íslandsmeistarar Stjörnunnar enda í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar ef spáin rætist. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Það kemur engum á óvart hvaða liðum er spáð þremur efstu sætunum en Stjarnan hlaut 83 stig.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. Stjarnan 83 stig
4. Valur 70 stig
5. Breiðablik 65 stig
6. Fylkir 56 stig
7. Víkingur 48 stig
8. Keflavík 34 stig
9. Fjölnir 28 stig
10. ÍBV 27 stig
11 ÍA 21 stig
12. Leiknir 14 stig

Um liðið: Rúnar Páll Sigmundsson var útnefndur þjálfari ársins í íslenskum íþróttum eftir árangur Stjörnunnar í fyrra. Liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir hreinlega magnaðan úrslitaleik gegn FH í Kaplakrikanum. Nú eru Garðbæingar komnir í stöðu sem þeir hafa aldrei kynnst áður og ætla að reyna að verja titilinn stóra.



Hvað segir Jörundur? Jörundur Áki Sveinsson er sérstakur álitsgjafi Fótbolta.net um liðin í Pepsi-deildinni 2015. Jörundur lét af störfum sem þjálfari hjá BÍ/Bolungarvík í fyrra en þar áður var hann aðstoðarþjálfari FH. Í dag þjálfar hann meistaraflokk kvenna hjá Fylki.

Styrkleikar: Eru með frábæra þjálfara sem tókst hið ómögulega með skemmtilegri nálgun. Ógnarsterkir miðju- og sóknarmenn. Hafa fengið góðan liðstyrk í Halldóri Orra, sem er klárlega einn af betri sóknarmönnum Pepsi-deildarinnar. Garðar Jó er vonandi laus við meiðsli og hann er þá klár viðbót við liðið frá því í fyrra, var í miklum meiðslum nánast allt síðasta tímabil. Presturinn er líka að koma inn eftir erfið meiðsli og það er gríðarlegur styrkur fyrir þá að fá hann inn. Þorri Rúnarsson spilaði reyndar fáránlega vel í fyrrasumar þegar Presturinn meiddist. Ótrúlega flottur og efnilegur leikmaður sem er væntanlega næsta söluvara Stjörnunnar.

Stjörnumenn líka Jeppann aftur sem er mikill styrkur fyrir þá. Hann skorar mörk, það er pottþétt! Pablo, Ólafur Karl, Atli Jó, King Veigar Páll... þetta er svakalegt lið! Silfurskeiðin mun síðan sjá til þess að þa verður líf og fjör á leikjum Stjörnunnar í sumar og styðja sína menn með gleði og söng. Það er styrkleiki!

Veikleikar: Það er erfitt að finna einhverja veikleika hjá Íslandsmeisturunum. Fyrir nokkrum dögum hefði ég sagt markvarslan en þeir redduðu því mjög smekklega. Það væri líka hægt að nefna hægri bakvarðastöðuna. Jói Lax er örugglega ekki klár í upphafi móts og þeir hafa verið að nota unga stráka í þessa stöðu. Eins verður gaman að sjá hvernig Brynjar Gauti kemur til með að spila með Danna Lax. Það verður mikil pressa á honum að standa sig.

Lykilmenn: Erfitt að taka einhverja út úr hópnum. Þetta er frábær liðsheild, allt frá fólkinu sem vinnur bak við tjöldin, þjálfarateymið, liðsstjórar, sjúkrateymi, svakalegur leikmannahópur. Eru klárlega með allt til alls til að vinna Pepsi 2015.

Gaman að fylgjast með: Verður gaman að fylgjast með hvort að þeir spili betur í upphafi móts heldur en þeir gerðu í fyrra. Voru kannski ekki að spila vel oft á tíðum en unnu tæpa sigra. Mér fannst þeir fara virkilega í gang um leið og Evrópuævintýrið hófst. Þá kom bullandi sjáfstraust í liðið. Gleymum því ekki að liðið tapaði ekki leik í deildinni, efast um að það verði endurtekið í bráð, ef einhverntímann. Þeir eru ríkjandi meistarar og nú verður gaman að sjá hvort þeir höndli þá pressu. Ég held þeir geri það.



Stuðningsmaðurinn segir - Björn Már Ólafsson
„Það er óneitanlega skemmtileg tilbreyting fyrir Garðbæinga að fara inn í tímabil með titil að verja. Erfitt verður að endurskapa tímabil síðasta árs þar allt gekk upp í deildinni og enginn leikur tapaðist. Liðin í kringum okkur á töflunni eru búin að opna veskið upp á gátt og ætla ekki að gefa tommu eftir. Því er þriðja sætið alveg eðlileg spá og vonandi verður það til þess að önnur lið haldi áfram að vanmeta liðið."

„Við höfum misst tvo Dani úr vörninni og Rolf Toft en í staðin erum við komin með Brynjar Gauta og Jeppe Hansen auk þess sem hvíta perlan er komin heim frá Svíþjóð. Hansen er að mínu mati betri framherji en Rolf Toft og vopnabúr liðsins fram á við því sterkara en í fyrra, en eftir á að koma í ljós hvort vörnin sé nægilega sterk. Ef varnarlínan smellur og Nielsen fyllir vel í hanskana sem Ingvar skildi eftir sig þá eigum við að geta barist um titilinn. Sigurviljinn og þrautseigjan í bland við hina ógnvekjandi, gljáfægðu Silfurskeið í stúkunni munu sjá til þess."

Völlurinn: Samsung völlurinn í Garðabæ er eini aðalvöllur efstu deildar með gervigrasi. Völlurinn tekur 990 manns í sæti í stúkunni.

Komnir:
Arnar Darri Pétursson frá Víkingi Ó. (Var í láni)
Aron Rúnarsson Heiðdal frá Keflavík (Var í láni)
Brynjar Gauti Guðjónsson frá ÍBV
Gunnar Nielsen frá Motherwell
Halldór Orri Björnsson frá Falkenbergs
Jeppe Hansen frá Fredericia

Farnir:
Baldvin Sturluson í Val
Hilmar Þór Hilmarsson í Val
Ingvar Jónsson í Start
Martin Rauschenberg til Gefle
Niclas Vemmelund
Rolf Toft í Víking

Leikmenn Stjörnunnar sumarið 2015:
13 Arnar Darri Pétursson
11 Arnar Már Björgvinsson
3 Aron Rúnarsson Heiðdal
20 Atli Freyr Ottesen Pálsson
7 Atli Jóhannsson
2 Brynjar Gauti Guðjónsson
24 Brynjar Már Björsson
9 Daníel Laxdal
27 Garðar Jóhannsson
1 Gunnar Nielsen
23 Halldór Orri Björnsson
12 Heiðar Ægisson
14 Hörður Árnason
19 Jeppe Hansen
4 Jóhann Laxdal
18 Jón Arnar Barðdal
30 Kári Pétursson
26 Kristófer Konráðsson
5 Michael Præst
17 Ólafur Karl Finsen
8 Pablo Punyed
21 Snorri Páll Blöndal
25 Sveinn Sigurður Jóhannesson
10 Veigar Páll Gunnarsson
6 Þorri Geir Rúnarsson
22 Þórhallur Kári Knútsson

Leikir Stjörnunnar 2015:
3. Maí ÍA – Stjarnan
10. maí ÍBV – Stjarnan
17. maí Stjarnan – Leiknir
20. maí Víkingur R. – Stjarnan
26. maí Stjarnan – FH
31. maí Breiðablik – Stjarnan
7. júní Stjarnan – Fjölnir
15. júní Fylkir – Stjarnan
22. júní Stjarnan – KR
29. júní Keflavík – Stjarnan
10. júlí Stjarnan – Valur
18. júlí Stjarnan – ÍA
26. júlí Stjarnan – ÍBV
5. ágúst Leiknir – Stjarnan
9. ágúst Stjarnan – Víkingur R.
17. ágúst FH – Stjarnan
24. ágúst Stjarnan – Breiðablik
30. ágúst Fjölnir – Stjarnan
14. sept Stjarnan – Fylkir
20. sept KR – Stjarnan
26. sept Stjarnan – Keflavík
3. okt Valur – Stjarnan

Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Alexander Freyr Einarsson, Elvar Geir Magnússon, Gunnar Birgisson, Hafliði Breiðfjörð, Arnar Geir Halldórsson og Jóhann Ingi Hafþórsson.
Athugasemdir
banner
banner