Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   mið 27. apríl 2016 09:52
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Arnór Ingvi: Rétti tíminn fyrir mig til að fara annað
Arnór Ingvi vill fara til Rapid Vín.
Arnór Ingvi vill fara til Rapid Vín.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason hefur áhuga á því að taka næsta skref á ferlinum en eins og við greindum frá í gær hefur austurríska félagið Rapid Vín gert Norrköping tilboð í leikmanninn.

Arnór vonast að samkomulag náist því hann vill ganga í raðir Rapid í sumar.

„Ég vil að félögin komist að samkomulagi. Það er komið gott tilboð og ég vona að þau nái að semja. Vonandi fer þetta í gegn á næstu vikum svo maður geti farið rólegur inn í sumarið," segir Arnór í samtali við Fótbolta.net.

Arnór var lykilmaður þegar liðið varð sænskur meistari á síðasta tímabili en hann var þá stoðsendingahæstur í deildinni. Þá hefur hann leikið afar vel með íslenska landsliðinu þar sem hann hefur skorað 3 mörk í 6 leikjum.

„Rapid Vín er rosalega flottur klúbbur. Þetta er það félag í Austurríki sem hefur mestu söguna og er alltaf í Evrópukeppni eða Meistaradeildinni. Það heillar mikið að fá að spila á þessu sviði og berjast um titilinn."

Rapid Vín reyndi einnig að fá Arnór í janúar en hann taldi að sá tímapunktur væri ekki réttur. Hann var þá að hugsa um Evrópumótið í Frakklandi.

„Ég taldi að það yrði erfitt fara í nýtt land og nýtt umhverfi og þurfa að kynnast nýju liði með nýja liðsfélaga þegar EM var að nálgast. Hérna er ég nokkuð öruggur með spilatímann og ég tel það mikilvægt fyrir mig að vera að spila til að fara með á EM."

Arnór telur að það yrði gott skref fyrir feril hans að fara til Rapid Vín í sumar. Hann hefur metnað til að ná langt og metur að þetta yrði rökrétt skref í rétta átt.

„Það er mikilvægt að taka ekki of stórt skref því það skiptir miklu máli að ég sé að spila. Maður tekur þetta í skrefum. Tíminn í Svíþjóð hefur verið mjög góður en ég tel að þetta sé rétti tíminn fyrir mig að fara annað," segir Arnór Ingvi við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner