Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfyssinga, segir það ekki koma á óvart að þjálfarar og fyrirliðar í 1. deildinni spái liðinu 10. sæti í sumar.
„Nei ég get ekki sagt það, við vorum í þessum pakka í fyrra, í fallbaráttu og liðið hefur ekki verið stöðugt síðustu ár," sagði Gunnar en Selfyssingar óttast ekki að sogast í fallbaráttu líkt og í fyrra.
„Það hefur ekki komið til tals og held að menn séu ekki að óttast hluti sem skipta ekki neinu máli hér og nú. Við einbeitum okkur að öðrum hlutum, ég allavega nenni ekki og hef aldrei spáð þannig í hlutina. Er ekki mikið nær að vera spenntur fyrir því ef svo færi að við sogumst upp í toppbaráttu?"
Gunnar segir að ekki sé búið að ákveða markmið sumarsins hjá Selfyssingum.
„Markmiðin eru mörg, bæði persónuleg markmið leikmanna sem og markmið liðsins. Í næstu viku sest liðið saman á fund þar sem við ætlum að setja okkur sameginleg markmið er varðar tímabilið og sumarið. Í vetur settum við okkur markmið sem snérust að liðsuppbyggingu, hvernig við ætluðum okkur að æfa, fitness og leikstíl sem flest hafa náðst. "
Selfyssingar losuðu sig við sex erlenda leikmenn eftir síðasta tímabil en fengu þrjá nýja inn í vetur. Heimamenn fá nú stærri hlutverk en í fyrra en ekki er von á frekari liðsstyrk fyrir mót.
„Við kláruðum okkar liðsskipðan fyrir töluverðum tíma síðan. Við erum með flotta Selfyssinga sem eru að koma heim úr námi í Bandaríkjunum, þeir vissulega bætast við æfingahópinn."
Gunnar segir að ánægja sé á Selfossi með þá ákvörðun að treysta meira á heimamenn. „Ég held að flestir séu spenntir fyrir komandi tímabili, liðið og félagið er tilbúið og von okkar allra er sú að bæjarfélagið styðji liðið sitt og sýni sig á vellinum hvernig sem viðrar, í sól og súld," sagði Gunnar.
Athugasemdir