fim 27. apríl 2017 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Coleman: Mér líður aftur eins og fótboltamanni
Coleman meiddist illa í leik með írska landsliðinu.
Coleman meiddist illa í leik með írska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
„Ég er baráttuhundur og það er hluti af mér sem hlakkar til að takast á við þetta," segir Seamus Coleman, bakvörður Everton, í viðtali við evertontv. Hann meiddist illa í landsleik með Írlandi í lok síðasta mánaðar, en er byrjaður í endurhæfingu.

Meiðslin litu hrikalega út til að byrja með, en Coleman lenti í slæmri tæklingu frá Neil Taylor, bakverði Aston Villa og Wales. Taylor hefur fengið tveggja leikja landsliðsbann.

Eftir aðgerð sem gekk vel varði Coleman mánuði með fjölskyldu sinni í heimabæ sínum, Killybegs á Írlandi, en þar fékk hann heimsóknir frá Phil Jagielka, fyrirliða Everton, og stjóranum Ronald Koeman.

Coleman sneri aftur á æfingasvæði Everton í dag í fyrsta sinn frá meiðslunum. Hann var glaður í bragði þegar rætt var við hann.

„Það er bara gott að vera kominn aftur og vera í kringum félagið. Mér líður aftur eins og atvinnumanni í fótbolta," sagði hann.

„Það var frábært að vera með fjölskyldu og vinum heima, en mig hefur langað til að koma aftur hingað. Þetta eru lítil skref, en ég er tilbúinn að hefjast handa."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner