Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fim 27. apríl 2017 09:30
Magnús Már Einarsson
Jói Kalli: Ég á ennþá góða adidas takkaskó
Jóahannes Karl Guðjónsson.
Jóahannes Karl Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhannes Karl í leik með HK í fyrra.
Jóhannes Karl í leik með HK í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Markmiðið hjá okkur er að standa okkur betur en í fyrra og ná í fleiri stig en í fyrra. Við ætlum að vera í efri hlutanum í deildinni," segir Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari HK en liðinu er spáð 9. sæti í Inkasso-deildinni í sumar í spá fyrirliða og þjálfara.

Sjá einnig:
Spá þjálfara og fyrirliða í Inkasso-deildinni: 9. sæti

„Við erum með fullt af góðum og efnilegum leikmönnum en þetta á fyrst og fremst að snúast um liðsheild hjá okkur. Ég tel okkur vera með öfluga liðsheild og ég tel að það geti fleytt okkur í efri hluta deildarinnar. Hlutirnir verða að ganga upp en ég hef trú á þessum strákum og trú á hlutunum sem við höfum verið að vinna í núna í vetur. Við ætlum okkur að vera í efri hlutanum."

„Fyrir tveimur árum byrjuðum við á verkefni með því að spila á okkar heimamönnum og gera hlutina svolítið öðruvísi en flest önnur lið í deildinni eru að gera. Það tekur tíma að byggja upp sterk lið. Það hefur verið of mikil leikmannavelta hjá HK undanfarin ár og það er eitthvað sem þarf að stoppa. Grunnurinn er að styrkjast hægt og rólega en þetta tekur tíma."

Jóhannes Karl spilaði af og til með HK í fyrra og í Lengjubikarnum spilaði hann einn leik. Reiknar hann með að spila í sumar? „Ég á ennþá góða adidas takkaskó sem ég get notað. Þeir eru ekki komnir upp á hillu. Það verður að koma í ljós hversu mikið ég verð með," sagði Jóhannes Karl en hann er ennþá að skoða liðsstyrk fyrir mót.

„Það gætu einhverjir leikmenn komið á láni áður en glugginn lokar. Við erum að skoða að breikka möguleikana fram á við hjá okkur. Við erum að skoða hvort við getum fundið einhverja leikmenn sem styrkja hópinn hjá okkur."

Jóhannes Karl segist reikna með að þrjú lið verði í mestri baráttu um að komast upp í Pepsi-deildina.

„Vonandi verður þetta mjög jöfn og spennandi deild. Ég hef trú á því að Fylkir, Keflavík og Þróttur verði helst að berjast um að fara upp. Það er misskipting í deildinni, hverjir hafa verið að ná sér í leikmenn og annað. Ég held að það sé hægt að tala um peninga í því samhengi og ég held að það sé ekki spurning að liðunum sem er spáð í neðri hlutanum eru liðin sem hafa minna á milli handanna. Það er alltaf erfitt þegar það er lítill peningur til staðar og lítið úr að moða á leikmannamarkaðinum."

„Það er mikill munur á því hvað félög eru að eyða í leikmenn eins og Þróttararnir hafa sýnt. Fylkismenn náðu að halda meira og minna öllum sínum mönnum frá því í Pepsi-deildinni og Keflavík getur keypt leikmann eins og Jeppe Hansen. Þessi þrjú lið ættu að vera að berjast um þessi efstu tvö sæti. Selfoss er með öfluga útlendinga og verða öflugir líka tel ég. Þórsararnir eru með mikla reynslu og þrælöflugt lið. Þeir verða erfiðir heim að sækja. Leiknir Reykjavík hefur líka náð sér í menn og styrkt sig. Við fáum vonandi hörkuskemmtilega Inkasso-deild í sumar,"
sagði Jóhannes Karl.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner