fös 27. maí 2016 16:57
Elvar Geir Magnússon
Nigel Pearson tekinn við Derby (Staðfest)
Nigel Pearson gerði fína hluti með Leicester.
Nigel Pearson gerði fína hluti með Leicester.
Mynd: Getty Images
Derby County hefur ráðið Nigel Pearson sem nýjan knattspyrnustjóra en þessi 52 ára stjóri hefur verið atvinnulaus síðan hann yfirgaf Leicester City í júní í fyrra. Pearson hefur skrifað undir þriggja ára samning.

Pearson tekur við af Darren Wassall sem var yfir akademíu Derby áður en hann tók við sem knattspyrnustjóri. Hann snýr nú aftur í fyrra starf.

Flestir sparkspekingar telja að um afar góða ráðningu sé að ræða hjá Derby en Pearson fær það verkefni að koma liðinu upp í úrvalsdeildina. Hann lagði grunninn að liði Leicester sem varð Englandsmeistari undir stjórn Claudio Ranieri.

Derby hafnaði í fimmta sæti Championship-deildarinnar á liðnu tímabili en tapaði fyrir Hull í umspilinu.

Pearson segir í viðtali við heimasíðu Derby að hann sé í skýjunum með nýja starfið og sé ákveðinn í að gera allt sitt til að stuðningsmenn verði stoltir.

Pearson var í viðræðum við Aston Villa en nú virðist allt stefna í að Villa, sem féll úr úrvalsdeildinni, ráði hinn ítalska Roberto Di Matteo.
Athugasemdir
banner
banner
banner