Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mán 27. júní 2016 23:18
Jóhann Ingi Hafþórsson
Nice
Gylfi Þór: Geggjað að senda Englendingana heim
Icelandair
Gylfi og Wayne Rooney í leiknum í kvöld.
Gylfi og Wayne Rooney í leiknum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór Sigurðsson var að sjálfsögðu afskaplega kátur með lífið og tilveruna eftir 2-1 sigurinn á Englandi í 16-liða úrslitum EM í kvöld.

Við spurðum Gylfa hvernig honum leið eftir leikinn.

„Æðislega, þetta var frábært. Það er geggjað að senda Englendingana heim. Við erum þreyttir eftir leikinn og við vorum mikið í vörn en það skiptir ekki máli, þeir voru ekki að skapa sér nein færi. Við erum gríðarlega sáttir og mjög stoltir á að hafa unnið þennan leik."

„Við vorum gríðarlega þéttir, þeir sköpuðu sér ekki mikið. Við náðum aðeins að halda boltanum betur sem gerir þetta auðveldara þegar við erum að verjast, það gefur okkur meiri orku í varnarleikinn. Ég held þetta hafi verið okkar besti leikur á mótinu."

Gylfi talaði um hversu mikilvægt það var að jafna, alveg um leið og liðið var lent undir í byrjun leiks og bætir við að honum leið ekki sérstaklega vel undir lok leiksins þegar England reyndi að jafna leikinn.

„Það var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að skora strax, það gaf okkur sjálfstraust og þetta var ekki að fara í einhvern eltingarleik og þeir væru að fara að halda boltanum og við værum bara 1-0 undir. Það var gott að skora strax og ennþá betra að skora seinna markið í fyrri hálfleik. Við fórum inn í hálfleik nokkuð sáttir og við náðum að verjast vel í lokin."

„Ég get ekki sagt að mér hafi liðið vel á 88. og 93. mínútu þegar boltarnir voru að fara inn í box en þetta hefur verið sagan okkar, við höfum alltaf einhvern vegin náð að halda út. Við erum það þettir varnarlega og strákarnir skalla það mikið í burtu, það er það sem er að skila þessum sigrum."

Gylfi sagði annað markið í leiknum vera með því betra sem hann hafði séð frá liðinu hingað til í leiknum.

„Kannski fyrir utan sendinguna hans Jóa, hann var að missa boltann og gaf bara eitthvað, það var gott að boltinn fór á mig. Þetta var góð sending á Jón Daða og Jón Daði lagði hann á Kolla og Kolli náði að setja hann í hornið, auðvitað var þetta frábært mark. Ekki bara gott spil heldur þýðingarmikið og gott að fá seinna markið svona snemma í leiknum.

Liðið mætir Frakklandi á Stade France í 8-liða úrslitum og er Gylfi ansi spenntur fyrir því.

„Frábærlega, það er algjör snilld að fá leik við England í 16-liða, henda þeim heim og fá síðan Frakkana á Stade de France í Paris. Þetta er vitleysa."

Gylfi spilar auðvitað í ensku úrvalsdeildinni og við spurðum hann hvernig það væri að fara aftur heim.

„Fínt, strákarnir í Wales voru að senda mér myndband af þeim fagna uppi á hóteli hjá þeim, það var gaman að sjá stuðninginn hjá þeim og þeir eru ánægðir með að vera komnir lengra en England. Það verður mjög gaman að fara aftur," sagði Gylfli að lokum.

Fótbolti.net er með öflugt teymi á Evrópumótinu og færir ykkur fjölmargar fréttir daglega. Einnig er fylgst grannt með gegnum helstu samskiptamiðla.
- Vertu með okkur á Twitter með því að nota kassamerkið #fotboltinet fyrir færslur um mótið.
- Fótbolti.net á Snapchat: Fotboltinet
- Fótbolti.net á Instagram: Smelltu hér til að sjá .Net á Instagram.
Fótbolti.net á Facebook: Smelltu hér til að fara á heimasvæði Fótbolta.net á Facebook.

FARÐU Á EM SÍÐU FÓTBOLTA.NET
Athugasemdir
banner
banner
banner