þri 27. júní 2017 16:15
Magnús Már Einarsson
Bestur í 9. umferð: Get notað vinstri í mjúku spyrnurnar
Arnór í leiknum á laugardaginn.
Arnór í leiknum á laugardaginn.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
„Þeir gerast ekki mikið betri dagarnir. Þetta var tvöföld hamingja," sagði Arnór Sveinn Aðalsteinsson, bakvörður KR, við Fótbolta.net í dag en hann er leikmaður 9. umferðar í Pepsi-deildinni.

Arnór Sveinn lagði upp öll mörk KR í 3-2 útisigri á KA á laugardaginn en sama dag útskrifaðist hann úr heimspeki í Háskóla Íslands.

„Ég missti af útskriftinni sjálfri en núna þarf ég að ná í plaggið upp í skóla. Síðan verður létt veisla fyrir vini og vandamenn um næstu helgi."

Bakvarðarþrenna
Arnór lagði upp tvö mörk með vinstri fæti snemma leiks en hann er réttfætur.

„Þegar ég byrjaði að spila vinstri bakvörð í meistaraflokki þá þurfti maður að geta notað vinstri fótinn. Ég myndi segja að vinstri fóturinn sé nothæfur í mjúku spyrnurnar. Maður getur tekið þessar mjúku fyrirgjafir með vinstri en þegar maður þarf að sparka lengra þá notar maður hægri," sagði Arnór sem var ánægður með stoðsendingarnar.

„Ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem ég legg upp þrjú mörk í sama leiknum. Þetta er þrenna eins og bakveðirnir kalla það," sagði Arnór og hló.

KR náði í langþráðan sigur á Akureyri eftir að hafa leikið fimm leiki í röð án sigurs í Pepsi-deildinni.

„Við byrjuðum töluvert verr en við ætluðum. Þessi leikur kom okkur aftur í gang. Okkur finnst við hafa spilað ágætlega en við höfum ekki verið að ná í stigin. Þetta var gott til rétta úr kútnum og þjappa okkur saman. Mér fannst þetta vera ótrúlega sterkur liðsheildarsigur og það gefur helling fyrir framhaldið."

Gaman í KR
Arnór er sjálfur hæstánægður í herbúðum KR en hann kom frá uppeldisfélagi sínu Breiðabliki síðastliðið haust.

„Þetta hefur verið ótrúlega gaman. Það fóru alls konar tilfinningar í gegn þegar ég var að fara frá Breiðabliki en um leið og ég tók ákvörðunina þá var það búið. Ég fann mig strax rosalega vel í KR og ég spilaði helling af leikjum í vetur. Þetta var smá öðruvísi tilfinning í fyrsta leik í vor en síðan hefur þetta verið eins og ég hafi verið þarna alla tíð liggur við. Mér líður ótrúlega vel þarna. Það er ótrúlega flott fólk sem stendur bakvið klúbbinn og mér líður vel þarna."

Næsta verkefni KR er á fimmtudag þegar liðið fær SJK frá Finnlandi í heimsókn í Evrópudeildinni.

„Framhaldið er ótrúlega skemmtilegt. Við erum að fara að mæta mjög góðu finnsku liði. Við metum okkar möguleika góða. Þetta er eins og topplið á Íslandi. Þeir eru sóknarsinnaðir og halda bolta vel. Þeir hafa eins og við verið í erfiðleikum með úrslit í síðustu leikjum en við metum möguleika okkar fína," sagði Arnór.

Domino's gefur verðlaun
Arnór fær pizzuveislu frá Domino's í verðlaun fyrir nafnbótina.„Ég tek pizzu hlaðna af grænmeti. Ég fæ mér til dæmis lauk, ólívur og kannski einhvern góðan mozzarella ost með," sagði Arnór.

Sjá einnig:
Leikmaður 8. umferðar - Haukur Páll Sigurðsson (Valur)
Leikmaður 7. umferðar - Sindri Snær Magnússon (ÍBV)
Leikmaður 6. umferðar - Emil Lyng (KA)
Leikmaður 5. umferðar - Arnar Már Guðjónsson (ÍA)
Leikmaður 4. umferðar - Andri Rúnar Bjarnason (Grindavík)
Leikmaður 3. umferðar - Aleksandar Trninic (KA)
Leikmaður 2. umferðar - Hilmar Árni Halldórsson (Stjarnan)
Leikmaður 1. umferðar - Steven Lennon (FH)
Athugasemdir
banner
banner
banner