„Þetta er vonandi sterkt stig fyrir okkur,“ sagði Guðmundur Benediktsson eftir 1-1 jafntefli Breiðabliks á útivelli gegn KR.
„Kannski hefðum við tekið stigið fyrir leik en eins og leikurinn spilaðist þá höfðum við tækifæri til að vinna leikinn. Það vantaði bara herslumuninn upp á að klára þetta.“
„Við viljum fleiri stig. Eftir síðasta leik vorum við súrir því þar höfðum við færi á að taka þrjú stig eftir að hafa verið manni fleiri um tíma. Okkur hefur ekki gengið nógu vel manni fleiri en ég get ekki kvartað yfir mínu liði. Strákarnir hafa lagt allt í sölurnar. Við vorum þéttir í fyrri hálfleik og gáfum engin færi á okkur.“
„Þeir fóru illa með okkur síðast og uppstillingin hér í dag bar keim af því. Við vildum þétta miðjuna þar sem þeir fóru illa með okkur seinast og það tókst mjög vel. Við spiluðum ekki alveg nógu vel úr spilunum eftir spjaldið og þeir fengu líka sénsa. Eins og sumarið hefur verið hingað til þá hefði það ekki komið mér á óvart hefðum við fengið eitt í andlitið í restina.“
„Ég á ekki von á viðbótum. Við erum með mjög þéttan hóp en við missum að vísu tvo menn núna í Gísla Páli og Tómasi Óla. Gísli hefur verið okkar jafnbesti maður síðan ég tók við og þetta er blóðtaka fyrir okkur. En það koma menn í manns stað og við munum fylla þessi skörð.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.
Athugasemdir