Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mið 27. júlí 2016 13:00
Magnús Már Einarsson
Gunni Borgþórs: Erum með stóra lyklakippu í liðsheildinni
Gunnar Borgþórsson.
Gunnar Borgþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Selfoss, úr Inkasso-deildinni, á möguleika á að komast í úrslit Borgunarbikarsins en liðið tekur á móti Val í undanúrslitum í kvöld.

„Stemningin er bara góð en róleg," sagði Gunnar þegar Fótbolti.net ræddi við hann en hann reiknar með að fjölmennt verði á leiknum í kvöld.

„Ég held að það verði góð mæting þó ég geti nú ekki spáð um tölur. Hér hefur verið mjög jákvæður andi, stemning og góður stuðningur í undanförnum leikjum. Samfélagið veit hvað við erum að byggja upp og ætlar að styðja okkur í þessari uppbyggingu."

Valur vann bikarmeistaratitilinn í fyrra en hver er lykillinn fyrir Selfyssinga ef þeir ætla að slá bikarmeistarana út og fara í úrslit?

„Það er enginn einn lykill sem vinnur Val, en við erum með stóra lyklakippu sem liðsheildin er. Ef við höldum skipulagi og vinnum saman eins og við höfum gert hingað til og gefum allt í þennan leik þá er aldrei að vita."

Gunnar segist ekki hafa áhyggjur af því að leikmenn verði yfirspenntir þegar kemur að leiknum í kvöld.

„Ég held að spennustigið verði ekki eitthvað vandamál. Eðlilega hlakkar öllum til, en þetta er bara fótboltaleikur eins og hver annar og við vitum að við erum að fara að spila gegn liði sem er að koma hingað til að verja titilinn. Pressan er eðlilega öll á því að Valur vinni þennan leik og komist í úrslitaleik," sagði Gunnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner